Beint á efnisyfirlit síðunnar

Á döfinni

26

Íþróttafólk Hafnarfjarðar 2023

02.01.2024

 

Hin árlega Íþrótta- og viðurkenningarhátíð Hafnarfjarðar var haldin 27. desember síðastliðin þar sem val á íþróttakarli, íþróttakonu og íþróttaliði Hafnarfjarðar fór fram í íþróttahúsinu við Strandgötu. 

Anton Sveinn McKee frá Sundfélagi Hafnarfjarðar er íþróttakarl Hafnarfjarðar 2023. 
Á árinu vann hann þrjá Íslandsmeistaratitla í 50, 100 og 200 metra bringu. Á heimsmeistaramótinu í Fukuoka í Japan náði hann að tryggja sér þátttökurétt á Ólympíuleikunum í París á næsta ári. Þá lenti hann í öðru sæti á Evrópumeistaramótinu í Rúmeníu í 200 metra bringusundi í desember. Anton æfir með atvinnumannaliði Virginia Tech University í Bandaríkjunum og er þar að auki í landsliði Íslands.  

Elín Klara Þorkelsdóttir, handknattleikskona frá Knattspyrnufélagi Hauka er íþróttakona Hafnarfjarðar 2023.  
Hún var valin besti og efnilegasti leikmaður Olísdeildar kvenna á lokahófi HSÍ í maí 2023 síðastliðnum, aðeins 18 ára gömul og valin besti leikmaður kvennaliðs Hauka á lokahófi handknattleiksdeildarinnar. Þá var hún Íslandsmeistari með 3. flokki kvenna og valin í A-landslið Íslands á árinu. 

Afrekslið Hafnarfjarðar 2023 er meistaraflokkur karla og kvenna í frjálsum íþróttum hjá FH. 

ÍSÍ bikarinn var afhentur Brettafélagi Hafnarfjarðar. 
Iðkendur félagsins eru á fjórða hundrað og er starfið rekið í þremur deildum; hjólabrettadeild, snjóbrettadeild og hjólreiðadeild. 
Snjóbrettadeildin er ein fjölmennasta snjóbrettadeild landsins og hefur ungt snjóbrettafólk náð góðum árangri í keppnum bæði innanlands og erlendis.   
Brettafélag Hafnarfjarðar er eina íþróttafélag landsins sem býður uppá skipulagðar æfingar á hjólabrettum og BMX freestyle hjólreiðum en hjólareiðadeild BFH hefur byggst hratt upp á stuttum tíma. Á annað hundrað barna- og unglinga stunda þessar tvær íþróttagreinar.
Forsvarsmenn félagsins hafa unnið gott frumkvöðlastarf í uppbyggingu þessara íþrótta og skapað iðkendum félagsins vettvang þar sem þau geta stundað sína íþrótt í öruggu umhverfi innan íþróttahreyfingarinnar. Brettafélag Hafnarfjarðar er aðili að tveimur sérsamböndum, Skíðasambandi Íslands og Hjólreiðasambandi Íslands, þar sem fulltrúar félagsins hafa tekið virkan þátt í að móta þjálfun, keppnisfyrirkomulag og mótahald.  Félagið var stofnað árið 2012. 

Nánari upplýsingar má finna á heimasíðu Íþróttabandalags Hafnarfjarðar.

Myndir/ÍBH

ÍSÍ óskar öllum til hamingju með árangurinn og viðurkenningarnar!

Myndir með frétt