Beint á efnisyfirlit síðunnar

Á döfinni

26

Kveðja frá forseta ÍSÍ

30.12.2023

 

Í lok árs er við hæfi að líta um öxl og rifja upp það helsta sem árið gaf okkur.
Þetta var annasamt ár hjá ÍSÍ eins og alltaf er um þau ár sem Íþróttaþing ÍSÍ ber upp á. Þingið var mjög gott og gaf framkvæmdastjórn ÍSÍ og starfsfólki góðar línur í starf næstu tveggja ára. Nýkjörin stjórn er mjög samstill og kraftmikil og hefur verið unnið að stórum málum síðustu mánuðina.

Þar ber hæst ákvarðanir um stofnun átta svæðaskrifstofa ÍSÍ og UMFÍ á landsvísu og aðkomu mennta- og barnamálaráðuneytis að fjármögnun þess verkefnis. Þar er um að ræða eina stærstu breytingu sem gerð hefur verið á fyrirkomulagi í rekstri hreyfingarinnar og verður spennandi að fylgja því eftir næstu misserin. Þetta verkefni er enn í þróun og á eftir að koma skipulagi um það á koppinn en ég er ekki í neinum vafa um að þetta á eftir að hafa gríðalega mikil og jákvæð áhrif inn í starfsemina á landsvísu. Fjölgun starfsfólks til að sinna lögbundnum verkefnum héraðssambanda og íþróttabandalaga, styrkja og efla starfið í héraði og aðstoða ríkið við þau verkefni sem samtvinnast starfsemi íþróttahreyfingarinnar mun gefa góða innspýtingu í starfið.  Þetta er frábært verkefni og ég bind miklar vonir við þessar breytingar, sem ÍSÍ og UMFÍ fara samstiga inn í með stuðningi ríkisins.
Fjögur ólympísk verkefni fóru fram á árinu, bæði vetrar- og sumarólympíuhátíðir Evrópuæskunnar, Evrópuleikarnir í Póllandi og svo fór ÍSÍ með stóran hóp keppenda á Smáþjóðaleikana á Möltu í maí. Þátttaka í Smáþjóðaleikum er eitt af stærri verkefnum sem ÍSÍ tekur þátt í á erlendri grundu og krefst mikils undirbúnings. Öll verkefnin gengu eins og í sögu og erum við stolt af fólkinu okkar og árangri þeirra.
Ráðning Vésteins Hafsteinssonar í stöðu Afreksstjóra ÍSÍ hefur borið með sér ferska vinda inn í afreksíþróttastarfið í landinu. Starfshópur mennta- og barnamálaráðuneytis, sem Vésteinn stýrir, er á fullu að vinna að tillögum um umhverfi afreksíþróttafólks í landinu sem jafnast á við það sem tíðakast í nágrannalöndum okkar.  Vel heppnuð ráðstefna í nóvember um afreksíþróttir var frábært innlegg í vinnu hópsins.
Árangur íslenskra íþróttamanna á árinu hefur verið góður og gefið fyrirheit um spennandi íþróttaár á næsta ári. Árið 2024 mun litast mjög af Sumarólympíuleikunum í París en þangað munum við vonandi ná að senda fjölbreyttan keppendahóp. Undirbúningur er kominn á fullt og verður virkilega gaman að upplifa leikana hér í næsta nágrenni við okkur.

Íþróttahreyfingin stendur frammi fyrir spennandi tímum og uppsveiflan er áþreifanleg. Vonandi ber okkur gæfa til að byggja enn styrkari stoðir undir íþróttastarfið í landinu og létta undir með sjálfboðaliðum sem bera uppi starfið í íþrótta- og ungmennafélögum landsins. Það er okkar að glæða eldinn og gæta þess að viðhalda loganum í starfinu, áhuganum hjá fólkinu okkar, gleðinni og kraftinum.


Fyrir hönd Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands vil ég þakka fyrir samfylgdina á árinu sem er að líða og óska ykkur öllum farsældar á komandi ári. Megi árið 2024 verða okkur öllum milt og gjöfult.

Lárus L. Blöndal, forseti ÍSÍ