Beint á efnisyfirlit síðunnar

Á döfinni

26

Dagur sjálfboðaliðans

01.12.2023

Í tilefni af degi sjálfboðaliðans þann 5. desember munu ÍSÍ og UMFÍ bjóða sjálfboðaliðum íþróttahreyfingarinnar að koma í Íþróttamiðstöðina í Laugardal og halda upp á daginn með okkur. 

Klukkan 15:00 verður stutt málþing þar sem þau þrjú sem voru tilnefnd til Íþróttaeldhuga ársins 2022, Haraldur Ingólfsson (Þór/KA og Þór), Þóra Guðrún Gunnarsdóttir (ÍSS, Björninn, SR) og Friðrik Þór Óskarsson (FRÍ, ÍR) munu segja sína sögu úr sjálfboðastarfi fyrir íþróttahreyfinguna. Að dagskrá lokinni eða um kl.16 er öllum viðstöddum boðið í vöfflukaffi í boði Vilko og Mjólkursamsölunnar.

Með þessu vilja ÍSÍ og UMFÍ vekja athygli á ómetanlegu framlagi sjálfboðaliða til íþróttastarfsins, en án þeirra gengi starfið einfaldlega ekki upp. Takk sjálfboðaliðar!

Á sama tíma og við bjóðum sjálfboðaliðum í Íþróttamiðstöðina í Laugardal þá gerum við okkur grein fyrir að sjálfboðaliðar eru dreifðir um landið. Því hvetjum við sambandsaðila okkar til að muna eftir deginum og þakka fyrir vel unnin sjálfboðastörf í þágu íþróttahreyfingarinnar.

Búið er að útbúa viðburð á Facebook fyrir þá sem hugsa sér að koma í Laugardalinn.

Að lokum viljum við minna á kosningu á Íþróttaeldhuganum 2023, en henni lýkur á degi sjálfboðaliðans 5. desember. Hjálpumst að við að beina kastljósinu að okkar frábæru sjálfboðaliðum!

Myndir með frétt