Beint á efnisyfirlit síðunnar

Á döfinni

15

Ráðstefnan Vinnum gullið vel heppnuð

21.11.2023

 

Það var fjölmenni þegar ráðstefnan Vinnum gullið, ný stefna í afreksíþróttum á Íslandi fór fram í Silfurbergi í Hörpu í gær, þann 20. nóvember.  Rúmlega 400 manns mættu og tóku virkan þátt auk þess sem um 250 manns fylgdust með í gegnum streymi.  Upphaflega átti ráðstefnan að fara fram á Grand hótel en vegna mikils áhuga var hún færð í stærri sal í Hörpu.  Dagskráin var þétt frá kl.09.00 til 16.00 og var henni stýrt faglega af Kristjönu Arnarsdóttur, íþróttafréttakonu.  

Forseti Íslands, Guðni Th. Jóhannesson, setti ráðstefnuna og bað fyrir kveðju Katrínar Jakobsdóttur sem ekki hafði tök á að mæta eins og upphaflega var planað.  Ásmundur Einar Daðason, ráðherra mennta- og barnamála, tók einnig til máls við setninguna en segja má að ráðstefnan sé að frumkvæði Ásmundar og hans ráðuneytis.  Eitt af markmiðum ráðstefnunnar var að fá þátttakendur til að vera virkir í hópavinnu og fá fjölbreytt skoðanir sem notaðar yrðu til þess að búa til nýja og betri stefnu í afreksmálum.

Vésteinn Hafsteinsson, afreksstjóri ÍSÍ, tók svo til máls og kynnti nýja sýn í afreksmálum.  Hún var á þá leið að tengja saman skóla, sveitarfélög, menntaskóla, íþróttafélög og samfélagið í heild svo hægt væri að virkja og finna fleiri börn og unglinga, sem líkleg væru til þess að verða afreksíþróttafólk og styðja við þau áfram íþróttaveginn á ýmsan máta. Þá tók Guðmunda Ólafsdóttir við, framkvæmdastjóri Íþróttabandalags Akraness, og fór yfir hugmyndina um svæðisstefnu og nýsköpun í afreksmálum en Guðmunda hefur verið hluti af starfshópi ráðuneytisins sem Vésteinn Hafsteinsson leiðir. Steingrímur Birgisson, forstjóri Hölds – Bílaleigu Akureyrar fór svo yfir stuðning atvinnulífsins við afreksíþróttirnar og hvernig sú markaðssetning hefur hjálpað til við að gera vörumerki Hölds áberandi og styrkt stöðu þess en  stuðningurinn hefur verið mikilvægur fyrir íþróttirnar.  

Afreksíþróttafólkið okkar tók líka þátt og hélt Björgvin Páll Gústafsson, landsliðsmarkvörður í handbolta erindi um það að íþróttirnar hafa ekki bara verið leikur fyrir honum, heldur hjálpuðu honum í gegnum erfiða tíma á yngri árum og verið hans atvinna mjög lengi, svo fátt eitt sé nefnt.  Hrafnhildur Lúthersdóttir, sundkona og ólympíufari, fór einnig yfir það hvað íþróttirnar gáfu henni mikið og hvernig þær mótuðu hana í gegnum lífið.  Björgvin Páll, Hrafnhildur, Anton Sveinn McKee og Sif Atladóttur tóku svo þátt í pallborðsumræðum þar sem þau svöruðu spurningum úr sal og tóku þátt í líflegum umræðum er sneru að íþróttaferlum þeirra og baráttunni við að skara framúr í íþróttum.

Dr. Erlingur Jóhannsson, prófessor og meðlimur í starfshópi ráðuneytisins fjallaði um Afreksmiðstöðina Team Iceland, sem hugmyndir eru uppi um að setja á stofn og fóru svo Alvin de Prins, framkvæmdastjóri Afreksíþróttamiðstöðvarinnar í Lúxemborg yfir módelið sem þau fara eftir, og Pia Mørk Andreassen, svæðisstjóri Afreksmiðstöðvarinnar í Noregi yfir norska módelið.  Í framhaldinu tóku þau öll þátt, ásamt Vésteini Hafsteinssyni, í pallborðsumræðum um afreksmiðstöðvar og fleira því tengdu. Á ráðstefnunni voru þátttakendur beðnir um að taka þátt í kosningu á nýju nafni fyrir Afreksmiðstöðina, sem verður svo stuðst við þegar henni verður gefið formlegt nafn síðar.   

Samantekt og ráðstefnuslit var svo í höndum forsvaraðilanna, sem standa að ráðstefnunni, þeirra Ásmundar Einars Daðasonar, ráðherra, Heiðu Bjargar Hilmisdóttur, formanns Sambands íslenskra sveitarfélaga, Lárusar L. Blöndal, forseta ÍSÍ og Auðar Ingu Þorsteinsdóttur, framkvæmdastjóra UMFÍ en það þótti jákvætt merki um breytta tíma að þessi fjórir aðilar hafi tekið höndum saman og vilji í sameiningu styrkja og breyta afreksíþróttamálum til hins betra.    

Meðfylgjandi myndir eru frá Jóni Aðalsteini en fleiri myndir má finna hér!

 

Myndir með frétt