Beint á efnisyfirlit síðunnar

Á döfinni

15

Undirbúningur fyrir ÓL í París 2024

10.11.2023

 

Andri Stefánsson, framkvæmdastjóri, Brynja Guðjónsdóttir sérfræðingur á Afrekssviði ÍSÍ og Halla Kjartansdóttir sviðsstjóri Stjórnsýslusviðs ÍSÍ fóru nýlega til Parísar og funduðu með skipuleggjendum Ólympíuleikanna í París 2024 um helstu þætti í undirbúningi fyrir leikana.  Undirbúningur leikanna er vel á veg kominn en að mörgu er að hyggja við verkefni af þessari stærðargráðu.

Hópurinn fékk leiðsögn um Ólympíuþorpið sem telst enn á byggingarstigi þó margir hlutar þess séu þegar fullbyggðir. Þorpið verður glæsilegt og öll aðstaða fyrir íþróttafólk og föruneyti lítur vel út. Að leikunum loknum munu byggingarnar verða nýttar í íbúðir og þjónustu fyrir hverfið, svo sem skólaþjónustu og læknisþjónustu. Ólympíuþorpið mun teygja sig yfir í hólma á ánni Signu en áin leikur einmitt stórt hlutverk varðandi kælingu. Leikarnir fara fram á heitasta tíma í París og áin mun veita náttúrulega vindkælingu inn í þorpið. Vistarverurnar sjálfar búa svo einnig yfir ýmsum úrlausnum þar að lútandi.

Einnig var fundað með fulltrúum sendiráðs Íslands í París um ýmis málefni er lúta að leikunum og þátttöku opinberra aðila í viðburðum leikanna. Það er ÍSÍ afar mikilvægt að eiga gott samstarf við sendiráð þeirra borga sem Ólympíuleikar fara fram í og fá þeirra stuðning og þekkingu að borðinu við undirbúning og þátttöku í leikunum.

Á leikunum verður áhersla lögð á almenningssamgöngur til að koma sér á milli íverustaða og keppnismannvirkja enda umferð í borginni þung og tafsöm alla daga og þá ekki síður á helsta ferðamannatímanum sem stendur einmitt yfir þegar leikarnir verða haldnir.
Aukinn þungi er nú kominn í undirbúning ÍSÍ fyrir leikana. Ólympíuleikar eru nokkuð flóknir í undirbúningi, ekki síst vegna strangra skilyrða Alþjóðaólympíunefndarinnar (IOC) um ýmsa þætti er lúta að þátttöku í leikunum og mikillar óvissu um fjölda þátttakenda nánast fram að leikum.

 

Myndir með frétt