Beint á efnisyfirlit síðunnar

Á döfinni

15

Opnun rannsóknarstofu í íþrótta- og heilsufræði HÍ

02.11.2023

 

Þann 31. október bauð Námsbraut í íþrótta- og heilsufræði við Háskóla Íslands (HÍ) til opnunar og kynningar á nýrri rannsóknarstofu í Laugardalshöll en hin endurbætta rannsóknarstofa er búin fjölda nýrra rannsóknartækja sem stórauka möguleika til mælinga og rannsókna á líkamlegu atgervi íþróttafólks og almennings.  

Að sögn Þórdísar Lilju Gísladóttur, forseta deildar Heilsueflingar íþrótta- og tómstunda við HÍ mun íþróttafræðinemum skapast ný tækifæri í námi sínu til að öðlast færni við afkastagetu mælinga og verða dýrmætari starfskraftar að námi loknu.  

Vel var mætt á opnun rannsóknarstofunnar og voru flutt ávörp frá dr. Jóni Atla Benediktssyni, rektor HÍ og dr. Kolbrúnu Þorbjörgu Pálsdóttur, forseta Menntavísindasviðs HÍ, Lárusi L. Blöndal, forseta ÍSÍ, og Vésteini Hafsteinssyni, afreksstjóra ÍSÍ, en hann flutti ávarp um nýjar áherslur og stefnu í afreksmálum. Í fjarveru Ásmundar Daða Einarssonar, ráðherra mennta- og barnamála flutti Óskar Þór Ármannsson, teymisstjóri í ráðuneytinu, ávarp. Þá kynnti dr. Milos Petrovic, forstöðumaður rannsóknarstofunnar, markmið og möguleikana sem hin nýja rannsóknarstofa hefur upp á að bjóða í dag og sýndi búnaðinn sem nú er þar í boði og svaraði spurningum gesta eftir að formlegri dagskrá var lokið.

ÍSÍ fagnar því að HÍ hafi bætt aðstöðu sína og kennslu til mælinga og rannsókna á sviði íþróttanna og vonast til þess að bæði afreksíþróttafólk og almenningur geti nýtt þá tækni sem í boði er, sér til framfara.   


Myndir/Gunnar Sverrisson fyrir HÍ.

Myndir með frétt