Beint á efnisyfirlit síðunnar

Á döfinni

15

Siglingasambands Íslands fagnar 50 árum

25.10.2023

 

Árið 1970 kviknaði fyrst áhugi á siglingum hjá nokkrum ungum mönnum í Reykjavík og Kópavogi og hófust þeir þá handa við að smíða báta og æfa siglingar. Um svipað leyti hófst kennsla í siglingum hjá Æskulýðsráði Reykjavíkur, en siglingar hafa verið fastur liður í sumarstarfi barna og unglinga í Reykjavík síðan þá. Upp frá þessu voru svo siglingafélög stofnuð sitt hvoru megin við Fossvoginn, en þar þótti heppilegt að vera vegna aðstöðu og veðurskilyrða. Í framhaldi af þessu voru svo sérstök félög stofnuð um siglingar.

Það var svo árið 1973 að Siglingsamband Íslands (SÍL) var stofnað, þann 25. október, og fagnar því 50 ára afmæli í dag. Var það fyrrum forseti ÍSÍ, Gísli Halldórsson, sem hvatti mjög til þess. Þann dag komu til þings fulltrúar frá fimm héraðssamböndum og íþróttabandalögum og voru eftirfarandi íþróttahéruð stofnaðilar SÍL:  Íþróttabandalag Reykjavíkur, Ungmennasamband Kjalarnesþings, Íþróttabandalag Hafnarfjarðar, Íþróttabandalag Akureyrar og Héraðssamband Suður-Þingeyinga. Fyrsti formaður SÍL var kjörinn Jón Ármann Héðinsson, fulltrúi UMSK og aðrir í fyrstu stjórn voru Gunnar Hilmarsson, ÍBR, Ari Bergmann Einarsson, ÍBR, Rúnar Steinsen, UMSK, og Stefán Sigtryggsson, ÍBA.  

Starfið fór rólega af stað en óx jafnt og þétt. Mót voru haldin frá upphafi og var yfirleitt eitthvað að gerast í hverri viku allt keppnistímabilið, sem stóð frá fyrstu viku maímánaðar til loka september. Sérsambandið hefur í gegnum tíðina tekið að sér fjölmörg hlutverk og er í dag einnig sérsamband fyrir róður og kayak, en þær íþróttagreinar eru á forræði annarra alþjóðasérsambanda en alþjóðasiglingasambandsins.

Í dag er formaður SÍL Gunnar Ólafur Haraldsson og framkvæmdastjóri er Úlfur Helgi Hróbjartsson.

ÍSÍ óskar Siglingasambandi Íslands og velunnurum til lukku með áfangann.

Myndir með frétt