Beint á efnisyfirlit síðunnar

Á döfinni

12.09.2024 - 12.09.2024

Fundur

Fundur verður haldinn í framkvæmdastjórn ÍSÍ...
20.09.2024 - 21.09.2024

Ársþing SKÍ 2024

Ársþing Skíðasambands Íslands verður haldið...
10.10.2024 - 10.10.2024

Fundur

Fundur verður haldinn í framkvæmdastjórn ÍSÍ...
22.10.2026 - 28.11.2019

YOG 2026 - Dakar

Ólympíuleikar ungmenna (YOG) fara fram í...
8

Forvarnardagurinn 2023: Hugum að vellíðan og verndandi þáttum í lífi barna og ungmenna

04.10.2023

 

Í dag, miðvikudaginn 4. október var Forvarnardagurinn 2023 settur í 18. sinn í Borgarholtsskóla. Forvarnardagurinn er haldinn á hverju hausti og er þá sjónum sérstaklega beint að ungmennum í 9. bekk grunnskóla og á fyrsta ári í framhaldsskóla. Skólar skrá sig til þátttöku og vinna verkefni Forvarnardagsins á tímabilinu 4.- 20. október. Í ár var einnig málþing í tengslum við Forvarnardaginn og tóku góðir gestir til máls. 

Ársæll Guðmundsson, skólameistari Borgarholtsskóla, bauð gesti velkomna og kynnti fundarstjórann, Dóru Guðrúnu Guðmundssdóttir, sviðstjóra lýðheilsusviðs Emættis landlæknis, til leiks. Forseti Íslands, Guðni Th. Jóhannesson, var fyrstur á mælendaskrá og fór yfir mikilvægi þess að huga að heilsunni og velja rétt strax á unglingsárum.  Alma D. Möller, landlæknir, tók önnur til máls og fór yfir mikilvægi þess að leita sér hjálpar á erfiðum stundum og benti í því samhengi á Ertu okei? sem er vefsíða og getur hjálpað ungmennum við erfið viðfangsefni.  Hana má finna hér.

Þá tók Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri, til máls og minnti á mikilvægi svefns og þess hvað góður nætursvefn getur auðveldað öllum, börnum sem fullorðnum, að takast á við daglega lífið.  Margrét Lilja Guðmundsdóttir, þekkingarstjóri hjá Planet Youth fór yfir niðurstöður rannsókna sem benda til þess að forvarnir skili árangri og fór yfir lykilþætti sem hjálpa ungmennum og fullorðnum að velja heilbrigt líferni og kynnti íslenska forvarnarmódelið.  Þá sögðu kennarar og nemendur úr Borgarholtsskóla frá heilsuviku skólans og verkefni sem gert voru í tilefni Forvarnardagsins 2022 og sýndu myndband af því tilefni.  

Upptöku af viðburðinum má finna á vef Forvarnardagsins

Embætti landlæknis fer með verkefnastjórn Forvarnardagsins og samstarfsaðilar eru embætti forseta Íslands, Reykjavíkurborg, Rannsóknir og greining, Planet Youth, Íþrótta- og Ólympíusamband Íslands, 
Ungmennafélag Íslands, Samfés, Samband íslenskra sveitarfélaga, Samstarf félagasamtaka í forvörnum, Bandalag íslenskra skáta og Heimili og skóli. 

Um Forvarnardaginn:
Verkefni Forvarnardagsins hafa frá upphafi verið byggð á rannsóknum. Skólar fá aðgang að verkefnum í glæruformi þar sem kennarar fara yfir verndandi þætti og hvað hægt er að gera til að 
auka vellíðan. Rannsóknir hafa sýnt að samvera með fjölskyldunni, þátttaka í skipulögðu íþrótta- og tómstundastarfi og það að leyfa heilanum að þroskast án neikvæðra áhrifa eru verndandi þættir fyrir 
áhættuhegðun. Nemendur nýta þetta efni svo til umræðu í hópavinnu og skrá hugmyndir sínar um hvað veitir þeim vellíðan og hefur áhrif á góða heilsuhegðun, um samskipti og samveru með 
foreldrum og fjölskyldu, áhrif félagsþrýstings o.fl. Einnig ræða nemendur í framhaldsskólum um þá ákvörðun að drekka ekki eða seinka því að byrja að drekka áfengi og hvaða þættir hafa áhrif á þá 
ákvörðun.

Nemendum býðst að taka þátt í leik sem verður á vefsíðu Forvarnardagsins www.forvarnardagur.is þar sem þau vinna með efni í tengslum við Forvarnardaginn. Forseti Íslands afhendir verðlaun við 
hátíðlega athöfn á Bessastöðum síðar á árinu. 

Nánari upplýsingar veitir: Margrét Lilja Guðmundsdóttir, þekkingarstjóri hjá Planet Youth margret@planetyouth.org (851 1110).
Verkefnastjórn Forvarnardagsins hjá embætti landlæknis: Ingibjörg Guðmundsdóttir, verkefnastjóri Heilsueflandi grunnskóla ingibjorg.gudmundsdottir@landlaeknir.is
Inga Berg Gísladóttir, verkefnastjóri Heilsueflandi framhaldsskóla Inga.b.gisladottir@landlaeknir.is

Mynd/Forvarnardagurinn

Myndir með frétt