Ólympíusamhjálpin styrkir þjálfara í bogfimi
Valgerður Einarsdóttir Hjaltested hefur fengið styrk frá Ólympíusamhjálpinni til að stunda þjálfaranám á vegum Alþjóðabogfimisambandsins. Fer námið fram í Lausanne í Sviss og stendur yfir í sex vikur. Allur kostnaður verður greiddur, það er flug, gisting, matur, námsgögn og dagpeningar. Þetta er frábært tækifæri fyrir Valgerði og mikil viðurkenning fyrir það mikla og flotta starf sem unnið er hjá Bogfimisambandinu.
Ólympíusamhjálpin getur styrkt einn til tvo þjálfara frá hverju landi á ári og þarf þjálfarinn að vera tilnefndur af ólympísku sérsambandi og hafa sótt sér þjálfaramenntun annað hvort í heimalandinu eða hjá viðeigandi alþjóðasambandi. Þjálfarinn þarf að vera virkur í sinni íþróttagrein, hafa praktíska reynslu og hafa metnað til að vinna að þjálfaramenntun og þróun íþróttagreinarinnar. Þrjár námslínur eru í boði:
- Íþróttafræði (Sport science training) - kennslan fer fram í afreksmiðstöðvum eða í ákveðnum íþróttaháskólum.
- Þjálfun íþróttagreinar - (Sport-specific training) - í samráði við alþjóðasamband.
- Klæðskerasniðið námskeið - (Tailor-made training) - Íþróttasamband ákveður staðsetningu og stofnun í samráði við Ólympíusamhjálpina og viðeigandi alþjóðasamband.