Beint á efnisyfirlit síðunnar

Á döfinni

10.10.2024 - 10.10.2024

Fundur

Fundur verður haldinn í framkvæmdastjórn ÍSÍ...
25.10.2024 - 26.10.2024

Landsþing LH 2024

Ársþing Landssambands hestamannafélaga verður...
01.11.2024 - 30.11.2024

Syndum

Verkefnið Syndum hefst 1. nóvember og stendur...
21.11.2024 - 21.11.2024

Fundur

Fundur verður haldinn í framkvæmdastjórn ÍSÍ...
8

Erla Marý og Gestur voru fulltrúar ÍSÍ á námskeiði á vegum Ólympíuakademíunnar

23.08.2023

 

Í júní á hverju ári heldur Alþjóða Ólympíuakademían námskeið í Grikklandi þar sem einstaklingum víðs vegar um heiminn er boðin þátttaka. Þátttakendum gefst tækifæri til að ferðast til borgarinnar Ólympíu og fræðast um gildi Ólympíuhreyfingarinnar á einn eða annan hátt í gegnum fræðslu, vinnustofur, íþróttaviðburði og skoðunarferðir svo fátt eitt sé nefnt. Í ár var Ólympíunámskeiðið haldið í 63. sinn, dagana 10.-22. júní.  Fulltrúar Íslands voru Erla Marý Sigurpálsdóttir og Gestur Gunnarsson, en þau voru valin úr hópi umsækjenda, en alls voru um 220 þátttakendur frá 73 löndum á námskeiðinu.  

Helsta markmið þessa námskeiðs að fræða þátttakendur um gildi Ólympíuhreyfingarinnar en aðalþemað í ár var hvernig hægt væri að viðhalda fólki í íþróttahreyfingu út lífið. Skipulag hvers dags var nokkuð svipað þar sem dagarnir hófust með fyrirlestrum og umræðum. Hópnum var svo skipt í 10 minni hópa þar sem fram fóru vinnustofur með verkefnum, umræðum og skýrslugerð. Hóparnir hittust svo oftar yfir daginn og unnu í sínum verkefnum, sem enduðu svo með kynningum að niðurstöðum og verkefnum.

Dagarnir voru yfirleitt langir og var því ýmislegt gert til að brjóta þá upp. Alla morgna var t.d. frjáls æfing fyrir morgunmat með mismunandi æfingum og íþrótt. Eftir hádegið var listatími þar sem valið stóð á milli verkefna í dansi, tónlist og myndlist. Fyrir kvöldmat var svo íþróttaviðburður en allir áttu að skrá sig í eina hópíþrótt og eina einstaklingsíþrótt til að taka þátt í en engin krafa var gerð um getu í íþróttunum, aðeins áhuga á að vera með og kynnast öðrum. Dagarnir enduðu svo á samverukvöldum (Social evenings) sem byrjuðu kl.21.00 þar sem þátttakendur fengu tækifæri til að kynna land sitt og kynnast betur öðrum þátttakendum. Mikið var lagt upp úr samveru og skemmtanagildi á öllum uppákomum.  

Skoðanaferðir skipuðu líka stóran þátt og fóru þátttakendur m.a. í skoðanaferðir til Aþenu til að skoða Akrópólis, Akrópólis safnið og Panatheniac Ólympíuleikvanginn og einnig var safnið um hina fornu Ólympíu skoðað ásamt rústunum þar sem fyrstu Ólympíuleikarnir voru haldnir. Þá var farið í útsýnisferð til Delphi síðasta daginn til að skoða gamlar rústir.  

Hluti af námskeiðinu fór einnig í ýmsar aðrar uppákomur, svo sem að taka þátt í Ólympíuhlaupi og Kyndlahlaupi, en þar skiptust hóparnir á að hlaupa með Ólympíueldinn og fána akademíunnar. Þá var einnig farið á ströndina og í næturfjallgöngu til að sjá sólarupprás snemma morguns.    

Erla Marý og Gestur voru hæstánægð með ferðina sína og tóku þátt í öllu sem í boði var. Þau mæltu með fyrir alla að taka þátt í svona ævintýri og töluðu um að eitt af því sem stóð upp úr í þessari ferð væri vináttan sem varð til á þessum stutta tíma. Þau töluðu um að það hefði verið frábært hvað þau höfðu kynnst og tengst mörgun nýjum manneskjum á þessum stutta 
tíma og að þau gætu ekki beðið eftir því að hitta vini sína aftur. 

Erla Marý og Gestur útbjuggu skemmtilegt myndband um ferðina sem má sjá hér.

Þá er einnig hægt að skoða kynningu á námskeiðinu frá skipuleggjendum hér.

Myndir með frétt