Sjöundi dagurinn á EYOF, Maribor
Síðasti keppnisdagurinn á EYOF í Maribor hófst á handboltaveislu. Íslenska liðið tók á móti Norðmönnum í hörkuleik. Leikurinn var afar jafn lengi vel en endaði með því að íslenska liðið vann 30-31. Íslenska liðið endar þá í 5. sæti á leikunum.
Vala Dís Cicero, keppandi í sundi, og Daníel Breki Elvarsson, keppandi í frjálsíþróttum voru fánaberar á lokahátíðinni.
Lokahátíðin hófst á skrúðgöngu frá Ólympíuþorpi að torgi í miðbæ Maribor þar sem stutt dagskrá tók við. Eftir það varð torgið að frábærri útiveislu þar sem keppendur nutu tónlistar og þeir sem vildu gátu dansað með. Næstu EYOF sumarleikar verða í Skopje í Norður-Makedóníu.
Fararstjórn ÍSÍ á leikunum þakkar öllum þátttakendum fyrir frábæra frammistöðu og ánægjulega keppni. Allir voru landi og þjóð til sóma. Íslenskir áhorfendur voru einnig til fyrirmyndar eins og alltaf.
Þá hafa allir keppendur lokið keppni og óskar ÍSÍ þeim öllum til hamingju með sinn árangur.