Anton Sveinn á Ólympíuleikana í París 2024
28.07.2023
Anton Sveinn McKee tryggði sér í gær þátttökurétt á Ólympíuleikunum í París næsta sumar þegar hann synti 200m bringusund á tímanum 2:09,19 á Heimsmeistarmótinu í Fukuoka í Japan.
Anton Sveinn er fyrsti Íslendingurinn til þess að tryggja sér þátttökurétt á Ólympíuleikunum en vonir standa til að fleiri íslenskir íþróttamenn fylgi í kjölfarið og tryggi sér þátttökurétt á leikunum. Tæpt ár er í leikana. Framundan verða því krefjandi en skemmtilegir mánuðir hjá fjölmörgum íþróttamönnum sem enn eiga möguleika á því að vinna sér inn þátttökurétt.
Ólympíuleikarnir í París næsta sumar verða fjórðu Ólympíuleikar Antons.
ÍSÍ óskar Antoni Sveini innilega til hamingju og góðs gengis í undirbúningi sínum fyrir leikana.