Beint á efnisyfirlit síðunnar

Á döfinni

15

Heimsókn frá Guanajuato fylki í Mexíkó

26.07.2023

 

Í dag kom hópur fólks frá Guanajuato fylki í heimsókn til ÍSÍ til að fræðast um íþróttastarf barna og unglinga á Íslandi. Hópurinn kom í gegnum Planet Youth skrifstofuna á Íslandi en Guanajuato fylki er eitt af nokkrum fylkjum í Mexíkó sem er að vinna að innleiðingu íslenska forvarnarmódelsins þar í landi. Í hópnum voru meðal annarra, íþróttamálaráðherra fylkisins, heilbrigðisráðherrann og borgarstjóri Guanajuato borgar.

Rannsóknir hafa sýnt að þátttaka í skipulögðu íþrótta- og tómstundastarfi er einn af lykilþáttum þegar kemur að forvörnum og eru börn og unglingar sem stunda íþróttir með íþróttafélagi mun ólíklegri til að stunda áhættuhegðun eins og að drekka áfengi, nota nikótínpúða og drekka orkudrykki en þau sem ekki taka þátt. Þá sofa þau almennt betur, líður betur andlega og líkamlega og meta heilsu sína betri. Íþróttastarf barna og unglinga á Íslandi er um margt sérstakt og hefur vakið athygli langt út fyrir landsteinana. Það sem helst hefur vakið athygli er menntaðir þjálfarar, frístundastyrkurinn, þátttaka sveitarfélaga í uppbyggingu og rekstri íþróttamannvirkja og mikil og almenn þátttaka. 

ÍSÍ tekur á hverju ári á móti fjölda hópa sem vilja fræðast um íþróttastarfið á Íslandi.