Beint á efnisyfirlit síðunnar

Á döfinni

15

Annar keppnisdagur á EYOF í Maribor

24.07.2023

 

Öðrum keppnisdegi Ólympíuhátíðar Evrópuæskunnar (EYOF í Maribor) er lokið. Keppni í sundi hélt áfram frá fyrra degi. Magnús Víðir Jónsson keppti í 400m skriðsundi og bætti tíma sinn 4:12,10 og varð í 27. sæti. Hólmar Grétasson keppti í 400m skriðsundi og bætti aldursflokkamet 14 til 16 ára drengja sem var metið hans Viktors Forafonovs síðan 2002 um tæpa sekúndu, hann synti á tímanum 4:08,86 en gamla metið var 4:09,53. Hann varð í 17 sæti í sundinu. Vala Dís Cicero bætti tíma sinn í 100m skriðsundi, synti á 58,00 og var níunda inn í 16 manna undanúrslit og hafnaði í 14 sæti. Ylfa Lind Kristmannsdóttir synti 200m baksund á 2:26,36 og varð hún í 32 sæti. Góður dagur hjá sundfólkinu okkar.

Í einliðaleik kvenna í tennis keppti Íva Jovisic við Marilyn Van Brempt og vann Marilyn viðureignina 2-0. Í einliðaleik karla keppti Andri Mateo Uscategui við Lenny Formann og sigraði Lenny bæði settin. Ómar Páll Jónasson keppti í einliðaleik og mætti Marko Dragovic og vann Marko með 2-0. Okkar strákar kepptu líka í tvíliðaleik en mættu ofjörlum sínum frá Austurríki og töpuðu viðureigninni 2-0.

Í frjálsíþróttum hófst keppni hjá Þorvaldi Gauta Hafsteinssyni sem keppti í 800m hlaupi og kom hann í mark á tímanum 2:00.06. Hann bætti sitt persónulega met en fyrir átti hann 2:02.75

Handknattleikslið karla hóf sinn fyrsta leik í riðlinum og keppti á móti Noregi. Í hörkuspennandi leik náðu okkar strákar yfirhöndinni að lokum og sigruðu leikinn 34-32.
Íslensku keppendurnir á leikunum sýndu það í dag að þau eru til fyrirmyndar innan vallar sem utan.

Á myndasíðu ÍSÍ er hægt að skoða fleiri myndir frá leikunum, hér

Myndir með frétt