Beint á efnisyfirlit síðunnar

Á döfinni

26

Þróttur Neskaupsstað 100 ára

06.07.2023

 

Þann 1.júlí sl. átti íþróttafélagið Þróttur Neskaupsstað 100 ára afmæli og blés við það tilefni til mikill íþróttaveislu. Hófst dagskráin á skrúðgöngu úr bænum upp á fótboltavöll bæjarins þar sem heljarinnar uppákoma og dagsskrá beið þátttakenda. Þrautir, leikir, skemmtidagskrá og töfrasýning Lalla Töframanns. 

Formleg veisla var svo haldin í sal Nesskóla þar sem boðið var í kaffi og voru þar mætt yfir 200 manns. Dagskráin var uppfull af ræðum, sem og annarri dagskrá auk þess sem 18 einstaklingum var veitt Gull- og Silfurmerki Þróttar fyrir velunnin störf en slík afhending hafði síðast farið fram á 90 ára afmæli Þróttar árið 2013.  Hafsteinn Pálssson, meðstjórnandi í framkvæmdastjórn ÍSÍ var mættur sem fulltrúi ÍSÍ og ávarpaði samkomuna.  Við það tækifæri afhenti hann Þorbjörgu Ólöfu Jónsdóttur, Bobbu, Gullmerki ÍSÍ, en Bobba hefur verið  áberandi í íþróttalífi Þróttar allt frá unga aldri enda mikil íþróttakona sjálf. Hún hefur mestum kröftum eytt í blakíþróttina en var einnig dugleg við að styðja og hjálpa til með börnin sín þrjú í íþróttum alla tíð, í fótbolta og á skíðum.  En hún er enn að og hefur komið víða við í sjálfboðaliðastörfum í mörgum deildum Þróttar, þar fyrir utan. 

Segja má að Bobba hafi verið í stjórnarstörfum í blakdeild Þróttar meira og minna frá 1991. Hennar fyrstu skref í stjórnarstörfum fyrir Þrótt voru á árunum 1991-1994 og svo aftur frá árunum 1998-2002 þegar hún dró sig í smá hlé er hún fluttist búferlum til Ísafjarðar í tvö ár. Þegar hún kom tilbaka sat hún svo samfellt í stjórn blakdeildarinnar frá árunum 2004 – 2019. 
Bobba var keppnisstjóri á Landsmóti UMFÍ 50 ára og eldri sem haldið var í Neskaupstað 2019 og tókst afar vel til. Hún situr nú í stjórn UÍA og gegnir þar hlutverki ritara og varaformanns. Það er leitun eftir fólki eins og Bobbu enda er hún alltaf boðin og búin í öll verkefni, sama hversu stór eða smá þau eru.  Sem dæmi má nefna að þá var hún auðvitað með þeim allra fyrstu að skrá sig í bakstur fyrir 100 ára afmæli Þróttar sem er nú einmitt nýafstaðið.   

 

ÍSÍ óskar Þorbjörgu Ólöfu innilega til hamingju með Gullmerkið og öllum Þrótturum og velunnerum til hamingju með 100 árin!

Myndirnar eru frá afmælisveislunni í Nesskóla, m.a. af Hafsteini og Þorbjörgu við afhendingu Gullmerkis hennar.  Gunnar Gunnarsson tók myndirnar.

Myndir með frétt