Beint á efnisyfirlit síðunnar

Á döfinni

27

Ólafur og Guðjón Valur útnefndir í Heiðurshöll EHF

26.06.2023

 

Evrópska handknattleikssambandið (EHF) fagnaði 30 ára afmæli sambandsins í Vínarborg í gær, 26. júní. Af því tilefni voru fyrstu 60 leikmenn sem skarað hafa fram úr á handknattleiksvellinum síðustu 30 árin teknir inn í Heiðurshöll EHF, 30 konur og 30 karlar. Á meðal þessara frábæru leikmanna eru tveir framúrskarandi fulltrúar Íslands, þeir Ólafur Stefánsson og Guðjón Valur Sigurðsson.

Ólafur lék 330 A landsleiki á sínum ferli og skoraði í þeim 1570 mörk og Guðjón Valur lék 365 A landsleiki og skoraði í þeim 1879 mörk og er markahæsti landsliðsmaður sögunnar. Bæði Ólafur og Guðjón Valur voru í silfurliði Íslands á Ólympíuleikunum í Peking 2008 og bronsliðinu á EM 2010 í Austurríki

ÍSÍ óskar þeim félögum hjartanlega til hamingju með verðskuldaða útnefningu í Heiðurshöll EHF. 

Sjá nánar á heimasíðu EHF og heimasíðu HSÍ.

Listi yfir útnefningar EHF.