Beint á efnisyfirlit síðunnar

Á döfinni

15

Ólafs E. Rafnssonar minnst

19.06.2023

 

Í dag eru 10 ár liðin frá því að Ólafur E. Rafnsson forseti ÍSÍ lést, 19. júní 2013, í blóma lífsins aðeins fimmtugur að aldri.

Ólafur stundaði körfuknattleik um árabil með Haukum í Hafnarfirði og lék m.a. með landsliði Íslands. Hann var formaður Körfuknattleikssambands Íslands í tíu ár (1996-2006) og var forseti ÍSÍ frá árinu 2006 og þar til hann lést.  Árið 2010 var hann kjörinn forseti FIBA Europe og gegndi hann því embætti einnig þar til hann lést.

Ólafur var einstaklega áhugasamur um íþróttahreyfinguna og lagði mikið á sig til að sinna öllum þáttum embættisins vel. Hann var mikið ljúfmenni, traustur, hlýr, spaugsamur, vinnusamur og óumdeildur leiðtogi. Ótímabært fráfall hans var mikið áfall fyrir íþróttahreyfinguna. Hans er sárt saknað af félögum og vinum í hreyfingunni sem minnast hans með virðingu, hlýhug og þakklæti.

Fulltrúar frá ÍSÍ lögðu leið sína í Hafnarfjarðarkirkjugarð í dag og lögðu blómakrans á leiði Ólafs, fyrir hönd íþróttahreyfingarinnar í landinu.

ÍSÍ sendir Gerði, ekkju Ólafs, börnum þeirra, fjölskyldu og öðrum aðstandendum hlýjar kveðjur á þessum degi.

Guð blessi minningu Ólafs E. Rafnssonar.

Myndir með frétt