Þóra Guðrún heiðruð á ársþingi ÍSS
24. Skautaþing Skautasambands Íslands (ÍSS) fór fram á Bryggjunni Brugghús, laugardaginn 13. maí sl. Þingfulltrúar voru 23, frá fimm aðildarfélögum, en auk þeirra voru fleiri gestir á þinginu. Þingforseti var Valdimar Leó Friðriksson og 2. þingforseti var María Fortescue.
Kosið var í nýja stjórn. Var kosið um formann, tvo aðalmenn og einn varamann til tveggja ára að þessu sinni auk þess sem einn aðalmaður var kosinn inn til eins árs, sökum breytinga innan stjórnar. Stjórn ÍSS skipa nú: Svava Hróðný Jónsdóttir, formaður, Ingibjörg Pálsdóttir, Þóra Sigríður Torfadóttir, Lonni Björg Hansen, Rakel Hákonardóttir, Kristel Björk Þórisdóttir og Guðrún Brynjólfsdóttir.
Teknar voru fyrir nokkrar breytingatillögur, til að mynda breyting á 5. grein laga um fulltrúafjölda á þingi. Samþykkt var að setja á laggirnar milliþinganefnd sem mun finna sanngjarnan farveg fyrir málið en samþykkt var á þinginu að ekkert félag geti haft meira en 49% atkvæðavægi á þingi. Tekin var fyrir umræða um að sameina stúlkna- og drengjakeppnisflokka í yngstu keppnisflokkunum. Skapaðist góð umræða um þetta málefni og fór svo að þingið kaus með miklum meirihluta að sameina stúlkna- og drengjaflokkana upp að og með 10 ára og yngri.
Anna Gígja Kristjánsdóttir hélt stutt erindi undir liðnum ávarp gesta um það hvernig hefur gengið að halda unglingum inni í íþróttinni. Mótanefnd færði sjálfboðaliðum sérstaka viðurkenningu, auk þess sem þrír sjálfboðaliðar voru sæmdar Silfurmerki ÍSS.
Hafsteinn Pálsson úr framkvæmdastjórn ÍSÍ og formaður Heiðursráðs ÍSÍ var fulltrúi ÍSÍ á þinginu. Hann ávarpaði þingið og afhenti, í samræmi við samþykkt framkvæmdastjórnar ÍSÍ, Þóru Guðrúnu Gunnarsdóttur Gullmerki ÍSÍ fyrir frábær störf í þágu skautaíþrótta. Þóra Guðrún hefur starfað sem sjálfboðaliði innan skautaíþróttarinnar síðastliðin 20 ár og lagt mikið að mörkum við að byggja upp íþróttina. Hún hefur setið í stjórn Bjarnarins og Skautafélags Reykjavíkur og sat í stjón ÍSS á árunum 2008-2012 og aftur frá 2014-2016. Eftir stjórnarsetu hefur hún aðstoðað við að byggja upp nefndarstörf sambandsins með formennsku í tveimur nefndum og hefur setið í ótal starfshópum. Hún setti upp samfélagsmiðlanet Skautasambandsins og hefur upp á síðkastið verið að vinna að þróunar- og uppbyggingarmálefnum eins og að hefja skautahlaup aftur til vegs og virðingar. Hún hefur séð um og staðið fyrir flestum mótum með sambandinu, kynnt og auglýst eftir bestu getu alla viðburði tengda skautum, séð um að koma skautaíþróttinni að í íþróttafréttum og aðstoðað sjónvarpið við uppsetningu myndavéla á keppnum til að ná sem besta sjónarhorninu. Hún á heiðurinn af því að endurskipuleggja rekstur sambandsins undanfarið ár, komið að gerð mótareglna, mótanefndar svo fátt eitt sé nefnt.
Þess má geta að Þóra Guðrún var ein af þremur íþróttaeldhugum sem tilnefndir voru til sjálfboðaliðaverðlaunanna Íþróttaeldhugi ársins 2023 í desember sl.
ÍSÍ óskar Þóru innilega til hamingju með verðskuldaða heiðursviðurkenningu!