Formaður endurkjörinn á ársþingi STÍ
Ársþing Skotíþróttasambands Íslands (STÍ) fór fram laugardaginn 22. apríl í Íþróttamiðstöðinni Laugardal. Mættir voru 36 fulltrúar frá níu aðildarsamböndum STÍ. Þingforseti var Jón S. Ólason, fyrrverandi formaður STÍ, og þingritari var Kjartan Friðriksson, fyrrverandi ritari stjórnar. Kolbrún Hrund Sigurgeirsdóttir úr framkvæmdastjórn ÍSÍ færði þingi kveðju framkvæmdastjórnar og Lárusar L. Blöndal forseta ÍSÍ.
Kosið var til stjórnar sambandsins og var Halldór Axelsson endurkjörinn formaður til næstu 2ja ára. Ómar Örn Jónsson og Magnús Ragnarsson voru einnig kjörnir til 2ja ára en Magnús kemur nýr inn í stjórnina. Sigurður I. Jónsson kemur nýr inn í varastjórn ásamt Birnu Sævarsdóttur. Jórunn Harðardóttir og Guðmundur Kr. Gíslason sitja áfram til eins árs.
Þingið tók fyrir ýmis mál og má þar nefna að hugmyndir um skattlagningu á félagsmenn í skotíþróttum voru felldar með yfirgnæfandi meirihluta en tillaga um skipan milliþinganefndar til að vinna þarfagreiningu vegna hugmynda um íslenska skotíþróttamiðstöð var samþykkt með breytingum.
Frekari upplýsingar má finna hjá Skotíþróttasambandinu.
Á meðfylgjandi myndum má sjá frá þinginu. Einnig hina nýju stjórn og Kolbrúnu Hrund Sigurgeirsdóttur úr framkvæmdastjórn ÍSÍ þegar hún ávarpaði þingið.