Beint á efnisyfirlit síðunnar

Á döfinni

26

Óskað eftir umsóknum á námskeið í Ólympíu í Grikklandi

18.04.2023

 

Íþrótta- og Ólympíusamband Íslands auglýsir eftir tveimur þátttakendum, kven- og karlkyns, á námskeið ungs íþróttafólks (20 til 30 ára) á vegum Alþjóða Ólympíuakademíunnar í Ólympíu í Grikklandi dagana 10.- 22. júní næstkomandi. Að þessu sinni er aðal umfjöllunarefnið "Nýsköpun í kennslu íþrótta og fræðslu um ólympísk gildi og hvernig getur Ólympíuhreyfingin laðað til sín ungt fólk". Þetta er einstakt tækifæri til að kynna sér starfsemi Alþjóða Ólympíuakademíunnar ásamt því að taka þátt í umræðum um gildi og hugsjónir Ólympíuhreyfingarinnar. Flugferðir, gisting og uppihald eru þátttakendum að kostnaðarlausu. Leitað er að einstaklingum sem náð hafa mjög góðum árangri í íþróttagrein (-greinum) og/eða sinnt kennslu/þjálfun/félagsstörfum innan íþróttahreyfingarinnar, ásamt því að sýna málefnum Ólympíuhreyfingarinnar sérstakan áhuga. Umsækjandi þarf að hafa gott vald á ensku og/eða frönsku og vera fyrirmynd annars æskufólks í hvívetna.

Þátttakendur taka þátt í alþjóðlegu námskeiðahaldi í tæpar tvær vikur og búa á heimavist Alþjóða Ólympíuakademíunnar í Ólympíu. Unnið er í lotum fyrir hádegi sem gjarnan lýkur á umræðum. Að því loknu er ýmislegt gert til að hrista hópinn saman; keppt í allskonar íþróttum, farið á ströndina og í skoðunarferðir. Reynsla þeirra sem hafa farið er að þau hafa öðlast dýpri skilning á sögu Ólympíuleikanna, fyrir hvað Ólympíuhugsjónin stendur og hvernig megi miðla þeirri þekkingu áfram. Það dýrmætasta hafi þó verið vináttuböndin sem þátttakendur mynda að lokinni tveggja vikna dvöl.
Umsóknarfrestur er til og með 26. apríl og fer skráning fram hér.

Frekari upplýsingar veitir Þórarinn Alvar Þórarinsson, sérfræðingur á Fræðslu-og almenningsíþróttasviði ÍSÍ, í sími 514 4000 eða á alvar@isi.is.