Beint á efnisyfirlit síðunnar

Á döfinni

05.12.2024 - 05.12.2024

Fundur

Fundur verður haldinn í framkvæmdastjórn ÍSÍ...
22

Úthlutun úr Ferðasjóði íþróttafélaga

30.03.2023

 

ÍSÍ hefur úthlutað úr Ferðasjóði íþróttafélaga styrkjum vegna ferðakostnaðar íþrótta- og ungmennafélaga vegna þátttöku í fyrirfram skilgreindum styrkhæfum mótum ársins 2022.

Að þessu sinni var úthlutað samtals 123,9 milljónum króna til 121 félags úr 21 íþróttahéraði, vegna 3.046 ferða í 23 íþróttagreinum. Heildarupphæð umsókna var 588.380.640,- en umsækjendur skrá einungis beinan ferðakostnað í umsóknir, ekki gistingu eða uppihald. Þess má geta að skráður gistikostnaður í umsóknir, sem umsækjendur geta valið um að skrá og telst ekki með til útreikninga, var tæplega 90 milljónir króna.

Styrkirnir eru greiddir út beint til viðkomandi íþrótta- og ungmennafélags, skv. umsóknum. Umsækjendur geta nú farið inn í umsókn sína í gegnum vefslóðina sem fylgdi stofnun umsóknarinnar og séð úthlutun styrkja pr. ferð. Fljótlega verður umsóknarsvæði sjóðsins opnað á ný fyrir umsóknir vegna ferða á yfirstandandi ári.

Vinnuhópur ÍSÍ um Ferðasjóð íþróttafélaga er baklandið fyrir skrifstofu ÍSÍ um afgreiðslu varðandi forsendur, fyrirspurnir og annað sem varðar þennan mikilvæga sjóð. Þau sem sitja í vinnuhópnum eru Ingi Þór Ágústsson formaður, Árni Ólason, Engilbert Olgeirsson, Jóhann Króknes Torfason, Olga Bjarnadóttir og Þór Í. Vilhjálmsson. Skrifstofa ÍSÍ annast yfirlestur umsókna og vinnur tillögu að úthlutun, í samræmi við samþykktar forsendur og í samráði við vinnuhópinn, sem síðan er lögð fyrir framkvæmdastjórn ÍSÍ til umfjöllunar og samþykktar.

Sjóðurinn hefur fengið árlegt framlag af fjárlögum Alþingis síðan árið 2007 og er haft samráð við mennta- og barnamálaráðuneytið um allar breytingar á grunnforsendum útreiknings styrkja.

Framlag ríkisins til sjóðsins skiptir íþróttahreyfinguna gríðarlega miklu máli enda ferðakostnaður íþróttahreyfingarinnar stór þáttur í rekstri flestra íþróttafélaga, ekki síst á landsbyggðinni. Með styrkjum úr sjóðnum hefur aðgengi íþróttafólks að keppni og íþróttamótum verið jafnað umtalsvert.

Þó aðeins hluti mótahalds í landinu sé styrkhæfur í sjóðnum þá endurspegla umsóknir í Ferðasjóð íþróttafélaga gríðarlegt umfang ferðalaga og ferðakostnaðar í íþróttastarfinu á landsvísu og þær miklu áskoranir sem íþróttafélögin í landinu, og þá aðallega í dreifðari byggðum landsins, þurfa að mæta í rekstrinum til að veita iðkendum sínum tækifæri til þátttöku í íþróttamótum.

Hér má sjá töflu yfir samtölur pr. hérað. 

Tafla yfir skiptinguna pr. íþrótt: