Fundur um innleiðingu laga í þágu barna
Fulltrúar Barna- og fjölskyldustofu, þær Elísabet Sigfúsdóttir og Halla Björk Marteinsdóttir, funduðu nýlega með fulltrúum frá ÍSÍ og UMFÍ um innleiðingu laga um samþættingu þjónustu í þágu farsældar barna. Meginmarkmið laganna er að börn og foreldrar sem á þurfa að halda hafi aðgang að samþættri þjónustu við hæfi, án hindrana.
Sveitarfélögin í landinu vinna að innleiðingu laganna og þegar innleiðingin verður komin lengra áleiðis þá er fyrirhugað að fara af stað með kynningar til íþróttahreyfingarinnar á landsvísu.
Íþróttahreyfingin, sem mikilvægur aðili í uppvexti og þroska barna og ungmenna á Íslandi, getur mögulega orðið almennur þjónustuveitandi við miðlun upplýsinga til tengiliðar, ef þannig ber undir.
Mikilvægt er fyrir íþróttahreyfinguna að þekkja grunnskilyrði samþættingar þjónustu, hvernig ferlið virkjast og öll stig þjónustunnar.