103. ársþing UMSS
103. ársþing Ungmennasambands Skagafjarðar (UMSS) var haldið þann 21. mars í Ljósheimum í Skagafirði. Þátttaka var mjög góð en tæplega 50 aðilar voru mættir á þingið. Fyrir hönd ÍSÍ var mættur Garðar Svansson, úr framkvæmdastjórn, og var hann kosinn þingforseti.
Farið var yfir hefðbundin þingstörf, s.s. ársreikninga, skýrslu stjórnar og breytingatillögur. Þá var Gunnar Þór Gestsson endurkjörinn formaður og Þorvaldur Gröndal og Jóel Þór Árnason kosnir áfram í stjórn. Í varastjórn til eins árs voru kjörin Elvar Einarsson, Hrefna Reynisdóttir og Indriði Ragnar Grétarsson.
Á þinginu veitti Garðar Svansson þeim Hirti Geirmundssyni og Magnúsi Helgasyni Silfurmerki ÍSÍ fyrir þeirra góðu störf í þágu íþróttamála en bæði Hjörtur og Magnús hafa verið öflugir sjálfboðaliðar og staðið vaktina í mörg ár í stjórn sinna félaga.
Einnig var undirritaður samstarfssamningur milli þeirra aðila sem standa að Unglingalandsmóti UMFÍ, sem fram mun fara á Sauðárkróki 3.- 6. ágúst nk. og svo ávarpaði Ómar Bragi Stefánsson, landsfulltrúi UMFÍ, þingið og kynnti þá viðburði sem framundan eru hjá ungmennasambandinu.
Meðfylgjandi myndir eru frá þinginu. Á þeirri þriðju má sjá Silfurmerkishafana með Garðari Svanssyni þingforseta og á síðustu myndinni má sjá frá undirritun samstarfssamningsins; frá vinstri Gunnar Þór Gestsson, formaður UMSS, Jóhann Steinar Ingimundarson formaður UMFÍ og Sigfús Ingi Sigfússon, sveitarstjóri Skagafjarðar.
Frekari upplýsingar um þingið má finna hér.