Beint á efnisyfirlit síðunnar

Á döfinni

25.10.2024 - 26.10.2024

Landsþing LH 2024

Ársþing Landssambands hestamannafélaga verður...
01.11.2024 - 30.11.2024

Syndum

Verkefnið Syndum hefst 1. nóvember og stendur...
21.11.2024 - 21.11.2024

Fundur

Fundur verður haldinn í framkvæmdastjórn ÍSÍ...
15

Sambandsþing UMSB

15.03.2023

 

Þann 8. mars síðastliðinn var 101. sambandsþing UMSB haldið í Þinghamri og var það vel sótt af aðildarfélögum UMSB. Dagskrá þingsins var hefðbundin og voru Flemming Jessen og Kristján Gíslason þingforsetar.

Á þinginu var farið yfir hefðbundin þingstörf, farið yfir ársreikning og skýrslu stjórnar. Þá var kosið í stjórn UMSB en sambandsstjóri er ávallt kjörinn til árs í senn en aðrir í stjórn til tveggja ára. Sonja Lind Estrajher Eyglóardóttir, sambandsstjóri UMSB til síðustu tveggja ára, gaf ekki áfram kost á sér til þess embættis og var Guðrún Hildur Þórðardóttir kjörin nýr sambandsstjóri. Rakel Dögg Sigurgeirsdóttir gaf áfram kost á sér sem ritari og Sölvi Gylfason gjaldkeri. Ólafur Daði Birgisson kom nýr inn í stjórn sem varasambandsstjóri og Elisabeth Ýr Mosbech Egilsdóttir ný inn sem meðstjórnandi. Thelma Harðardóttir var kjörin varavarasambandsstjóri og Þórhildur María Kristinsdóttir sem varameðstjórnandi. Áfram í stjórn voru svo Ástríður Guðmundsdóttir vararitari og  Eyjólfur Kristinn Örnólfsson varagjaldkeri. 

Sjö umsækjendum voru veittir styrkir úr afrekssjóði UMSB.  Flutt voru ávörp frá Stefáni Brodda Guðjónssyni, sveitastjóra Borgarbyggðar, og Garðari Svanssyni, frá framkvæmdastjórn ÍSÍ en hann og Hafsteinn Pálsson, 2. varaforseti ÍSÍ mættu á þingið fyrir hönd ÍSÍ. 

Þá voru veitt heiðursmerki UMFÍ til þriggja einstaklinga sem höfðu lagt sínu ungmennafélagi lið til margra ára og unnið ómetanlegt starf í þágu samfélagsins.   Af því tilefni fór einn hinna heiðruðu, Þorvaldur Jónsson, með eftirfarandi stöku við mikinn fögnuð viðstaddra, en hún var skemmtilegt uppbrot á þinginu: 

Þrátt fyrir lífs míns hrun og hröp
hress er ég enn og glaður.
Að endingu fyrir elliglöp
er ég nú verðlaunaður.

Nánari upplýsingar um þingið má finna hér.

Meðfylgjandi myndir sýna Garðar Svansson, úr framkvæmdastjórn ÍSÍ ávarpa þingið og Guðrúnu Hildi Þórðardóttur, nýjan sambandsstjóra.  Einnig Kristínu Gunnarsdóttir, Þorvald Jónsson og Guðmund Finnsson sem öll voru heiðruð af UMFÍ á þinginu.  Með þeim á myndinni er Hallbera Eiríksdóttir frá UMFÍ, sem afhenti heiðursmerkin.

 

Myndir með frétt