Beint á efnisyfirlit síðunnar

Á döfinni

15

Hlutverk Lyfjaeftirlits Íslands útvíkkað

03.02.2023

 

Nú nýverið undirritaði Ásmundur Einar Daðason mennta- og barnamálaráðherra samning við Lyfjaeftirlit Íslands (LÍ) um áframhaldandi störf stofnunarinnar næstu þrjú árin. Skúli Skúlason formaður stjórnar LÍ undirritaði samninginn af hálfu LÍ.

Lyfjaeftirlit Íslands skipuleggur og framkvæmir lyfjaeftirlit í íþróttum hérlendis. Stofnunin birtir og kynnir bannlista WADA um efni sem óheimilt er að nota í íþróttum, stendur að fræðslu og forvörnum gegn lyfjamisnotkun og hvetur til rannsókna. LÍ tekur þátt í alþjóðastarfi og er falið að tryggja að eftirlit og reglur hérlendis séu í samræmi við alþjóðasamninga UNESCO og Evrópuráðsins um lyfjaeftirlit og lyfjareglur Alþjóðalyfjaeftirlitsstofnunarinnar (WADA).

Í nýja samningnum er hlutverk LÍ útvíkkað, þ.e. stofnuninni er einnig falið að sinna fræðslu og forvarnarstarfi í baráttunni gegn hagræðingu úrslita í íþróttum, í samstarfi við hagaðila í samræmi við sáttmála Evrópuráðsins um hagræðingu úrslita í íþróttakeppnum (Macolin Convention). Íslensk stjórnvöld hafa staðfest þann sáttmála sem öðlast gildi 1. apríl nk.

LÍ er falið að útbúa fræðsluefni og fræðslufyrirlestra fyrir íþróttahreyfinguna,standa fyrir fræðslufundum og þróa frekara samstarf við hagaðila.