Beint á efnisyfirlit síðunnar

Á döfinni

2

Ólympíuhátíð Evrópuæskunnar hafin

22.01.2023

Á laugardagskvöld var Ólympíuhátíð Evrópuæskunnar sem fram fer í Friuli Venezia Guila á Ítalíu sett við hátíðlega athöfn í borginni Trieste. Setningarhátíðin var með glæsilegasta móti og leiddu fánaberar okkar, þau Sonja Lí Kristinsdóttir keppandi alpagreinum og skíðagöngukappinn Fróði Hymer, íslenska hópinn inn á torgið þar sem leikarnir voru settir og Ólympíueldurinn tendraður.

Á sunnudag fór fram fyrsti keppnisdagur leikanna. Snjóbrettakapparnir Alís Helga Daðadóttir, Ari Eyland Gíslason, Júlíetta Iðunn Tómasdóttir og Reynar Hlynsson voru fyrst Íslendinganna til þess að hefja keppni þegar þau kepptu í Big Air keppni á snjóbrettum.

Í Big Air keppni á snjóbrettum framkvæma keppendur tvö stökk á stórum stökkpalli og stigahærra stökkið gildir.

Keppnisaðstæður voru með besta móti og pallarnir góðir. Þrátt fyrir að okkar keppendur hafi ekki öll náð að lenda sínum bestu stökkum voru þau ánægð með þá dýrmætu reynslu og upplifun sem dagurinn færði þeim. 

Öll úrslit frá leikunum má sjá hér á heimasíðu leikanna.

Á morgun, mánudag, eiga keppendur í skíðagöngu sviðið þegar keppt verður í 10 km hefðbundinni göngu drengja og 7,5 km hefðbundinni göngu stúlkna. Drengirnir hefja leik klukkan 09:00 að íslenskum tíma og stúlkurnar klukkan 11:00 á íslenskum tíma.

Sýnt verður frá keppni í hefðbundinni göngu í beinni útsendingu á https://eoctv.org/

Myndir með frétt