Beint á efnisyfirlit síðunnar

Á döfinni

01.11.2024 - 30.11.2024

Syndum

Verkefnið Syndum hefst 1. nóvember og stendur...
30

Íþróttaeldhugi ársins 2022 útnefndur

29.12.2022

Haraldur Ingólfsson var í kvöld útnefndur Íþróttaeldhugi ársins 2022.

Sjálfboðaliðar gegna veigamiklu hlutverki í íþrótta- og æskulýðsstarfi í landinu og gera það að verkum að starfið í hreyfingunni er jafn öflugt og raun ber vitni. Íþrótta- og Ólympíusamband Íslands, í samvinnu við Lottó, stóð fyrir þeirri nýbreytni að útnefna í fyrsta skipti Íþróttaeldhuga ársins úr röðum sjálfboðaliða í íþróttahreyfingunni. Gert er ráð fyrir því að útnefningin verði árleg. Með útnefningunni vill ÍSÍ vekja athygli á starfi sjálfboðaliðans og koma á framfæri þakklæti fyrir framlag sjálfboðaliða um land allt.

Fyrsti Íþróttaeldhugi ársins var útnefndur á hófi Íþróttamanns ársins sem fram fór í Silfurbergi í Hörpu í kvöld. Þrír einstaklingar voru valdir úr fjölda tilnefninga sem bárust ÍSÍ, úr íþróttahreyfingunni og frá almenningi. Þau þrjú sem heiðruð voru í kvöld fyrir þeirra ómetanlegu störf voru:

  • Friðrik Þór Óskarsson, sem hefur starfað fyrir ÍR og Frjálsíþróttasamband Íslands,
  • Haraldur Ingólfsson sem hefur starfað fyrir Íþróttafélagið Þór og Þór/KA, og 
  • Þóra Guðrún Gunnarsdóttir sem hefur starfað fyrir Björninn, Skautafélag Reykjavíkur og Skautasamband Íslands.

Öll hafa þau unnið mikið og óeigingjarnt starf í þágu íþrótta.

Eins og fram kemur hér í byrjun fréttarinnar var það Haraldur Ingólfsson sem hreppti titilinn Íþróttaeldhugi ársins 2022 og hlaut hann veglegan verðlaunagrip sem Sigurður Ingi Bjarnason gullsmiður hannaði sérstaklega fyrir þennan góða titil.

Í umsögnum um Harald í innsendum tilnefningum kom m.a. efirfarandi fram:

„Haraldur starfar fyrir allar deildir Íþróttafélagsins Þórs og sinnir stóru hlutverki hjá kvennaliði Þór/KA. Hann fer sem liðsstjóri í útileiki og er bílstjóri í flestum ferðum. Hann hefur umsjón með búningamálum og sér um þvott á búningum hjá elstu flokkum knattspyrnunnar. Haraldur heldur utan um heimasíðu félagsins í samstarfi við ritstjóra, skrifar fréttatilkynningar, sér um samfélagsmiðla, hefur umsjón með umgjörð heimaleikja og er kynnir á þeim.

Haraldur hefur verið mótstjóri á Goðamótinu í mörg ár, ásamt því að stýra Pollamótinu og Árgangamóti Þórs. Einnig heldur hann utan um framkvæmd á íþróttakonu/-karli Þórs og er getraunastjóri félagsins. Haraldur hefur einnig setið í aðalstjórn félagsins sem varaformaður. haraldur sinnir einnig sjálfboðaliðastarfi í handbolta og fótbolta, bæði karla og kvenna. Hann hefur séð um uppsetningu búnaðar á heimaleikjum í Íþróttahöllinni, verið kynnir og séð um útsendingar á Þór/TV. Hann sinnir mörgum störfum innan félagsins sem alla jafna væru á herðum margra manna og kvenna.

Alls bárust 367 tilnefningar um 175 einstaklinga úr 24 íþróttagreinum. Sérstök valnefnd skipuð þeim Þóreyju Eddu Elísdóttur formanni nefndarinnar, Kristínu Rós Hákonardóttur, Margréti Láru Viðarsdóttur, Bjarna Friðrikssyni og Degi Sigurðarsyni fór yfir allar tilnefningarnar og valdi ofangreinda þrjá einstaklinga þar úr. Kom fram í máli formanns valnefndarinnar að verkefnið hefði ekki vandasamt því að svo margar frábærar tilnefningar hefðu borist.

ÍSÍ óskar Haraldi innilega til hamingju með útnefninguna. Þeim Friðriki Þór og Þóru Guðrúnu er einnig óskað til hamingju með frábærar tilnefningar, en öll þrjú fengu sérstakt viðurkenningarskjal, kerfismiða frá Lottó og gjafabréf frá Íslandshótelum. Öllum þremur er þakkað fyrir þeirra ómetanlega framlag til íþróttastarfsins.