Beint á efnisyfirlit síðunnar

Á döfinni

01.11.2024 - 30.11.2024

Syndum

Verkefnið Syndum hefst 1. nóvember og stendur...
30

Brúum bilið: Verkefni til að auka þátttöku og virkni fatlaðra barna og ungmenna í íþróttastarfi

16.12.2022

 

Þrír ráðherrar, Guðmundur Ingi Guðbrandsson, félags- og vinnumarkaðsráðherra, Willum Þór Þórsson, heilbrigðisráðherra, og Ásmundur Einar Daðason, mennta- og barnamálaráðherra, undirrituðu 15. desember sl. samstarfsyfirlýsingu um verkefnið „Farsælt samfélag fyrir öll – brúum bilið“ en það miðar að því að efla íþróttaástundun fatlaðs fólks, ekki síst fatlaðra barna og ungmenna. Alls verður 60 milljónum króna veitt til verkefnisins sem er til þriggja ára.

Íþróttasamband fatlaðra er ábyrgðaraðili verkefnisins en það verður unnið í samstarfi við Íþrótta- og Ólympíusamband Íslands og Ungmennafélag Íslands. Bakhjarlar verkefnisins verða ofangreind þrjú ráðuneyti, auk ÖBÍ og Þroskahjálpar.

Markmiðið er að öll börn og ungmenni eigi möguleika á að taka þátt í íþróttum í samræmi við óskir þeirra og þarfir. Áhersla er á að fötluðum börnum og ungmennum verði til að mynda gert kleift að stunda íþróttir með ófötluðum börnum kjósi þau svo. Verkefnið er liður í að ná þeim markmiðum samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks sem varða þátttöku fatlaðs fólks í íþróttastarfi.
Aðgerðirnar sem ráðist verður í byggja á tillögum sem fram komu á ráðstefnu s.l. vor undir yfirskriftinni „Farsælt samfélag fyrir alla – tækifæri barna og ungmenna í íþróttastarfi“. Um 200 manns tóku þátt og fjöldi hugmynda varð til. Aðgerðaáætlun var í kjölfarið unnin um fulla þátttöku og virkni fatlaðs fólks á forsendum eigin getu.

Verkefnastjóri mun nú vinna að framgangi aðgerðanna og eiga í samstarfi við sveitarfélög og íþróttafélög um land allt, auk fulltrúa félagsþjónustu, skóla, sérsambanda ÍSÍ, íþróttahéraða ÍSÍ og UMFÍ og fjölda annarra sem tengjast verkefninu. Einnig verða veittir styrkir og aðstoð við þróun sprotaverkefna í íþróttastarfi sem hafa þann tilgang að efla nýsköpun og styrkja við góðar fyrirmyndir þannig að markmið verkefnisins nái fram að ganga.

Í stýrihópi þessa verkefnis " Farsælt Samfélag, - Íþróttir fyrir öll börn - sem hófst fyrir tveimur árum og lýkur með þessum samningi, voru fulltrúi félags og vinnumálaráðuneyti, Þór G Þórarinsson, fulltrúi ÍF, Anna Karólína Vilhjálmsdóttir, fulltrúi Þroskahjálpar, Anna Lára Steindal auk þess sem fulltrúi ÖBÍ, Þórdís Viborg starfaði tímabundið með hópnum.

Á myndum eru ráðherrarnir þrír, ráðherrar ásamt fulltrúum ráðuneyta, Þroskahjálpar, ÍF, ÍSÍ og UMFÍ og fulltrúar IF,ISI og UMFÍ ásamt Þór Þórarinssyni sem leiddi verkefnið

Myndir með frétt