Beint á efnisyfirlit síðunnar

Á döfinni

05.12.2024 - 05.12.2024

Fundur

Fundur verður haldinn í framkvæmdastjórn ÍSÍ...
22

Til hamingju með daginn sjálfboðaliðar!

05.12.2022

 

Ár hvert er 5. desember helgaður sjálfboðaliðum um allan heim. Upphaf dagsins má rekja til ársins 1985 þegar Sameinuðu þjóðirnar ákváðu að gera 5. desember að degi sjálfboðaliðans. 

Íþróttahreyfingin á Íslandi hefur í gegnum tíðina verið borin uppi af sjálfboðaliðum sem starfað hafa af ástríðu í þágu íþrótta í landinu. Sjálfboðaliðar í hreyfingunni sinna verkefnum, stórum jafnt sem smáum og sjá til þess að starfsemin blómstri. Það gleymist oft að þakka sjálfboðaliðum fyrir þeirra mikilvæga framlag og því er tilvalið að nýta þennan góða dag til að þakka þeim fjölmörgu sem sinna og /eða hafa sinnt sjálfboðastörfum í hreyfingunni. Vonandi mun íþróttahreyfingin áfram búa svo vel að geta leitað aðstoðar hjá sjálfboðaliðum svo hreyfingin megi halda áfram að dafna og eflast. 

Í tilefni dagsins hefur mennta-og barnamálaráðuneytið ýtt úr vör átaki þar sem athygli er vakin á framlagi sjálfboðaliða hjá íþrótta- og félagasamtökum. Átakið heitir Alveg sjálfsagt og hafa auglýsingar undir því slagorði verið sýnilegar á miðlum síðustu daga. Að auki hefur ráðuneytið skipulagt ráðstefnu um sjálfboðaliða í íþrótta-og æskulýðsstarfi til vitundarvakningar um mikilvægi sjálfboðaliðans. Ráðstefnan verður haldin á Hilton Reykjavík Nordica í dag og verður umfjöllunarefnið störf sjálfboðaliða og áskoranir hjá þeim samtökum sem reiða sig á störf þeirra. 

ÍSÍ sendir öllum sjálfboðaliðum í íþróttahreyfingunni bestu kveðjur í tilefni dagsins og þakkir fyrir þeirra óeigingjörnu störf í þágu íþrótta á Íslandi!

Myndir með frétt