Beint á efnisyfirlit síðunnar

Á döfinni

15

KSÍ stofnar ungmennaráð

29.11.2022

 

KSÍ hélt sitt fyrsta ungmennaþing sunnudaginn 27. nóvember sl. Komu þar saman 60 ungmenni, á aldrinum 12-18 ára, frá um 20 íþrótta- og ungmennafélögum. Hvert félag fékk að senda fjögur ungmenni á þingið. Markmið þingsins var að gefa ungmennum landsins, sem spila knattspyrnu, rödd með stofnun ungmennaráðs. Sérstakur gestur þingsins var Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, sem setti þingið ásamt Vöndu Sigurgeirsdóttur, formanni KSÍ.

Starfsnemar í Tómstunda- og félagsmálafrði við Háskóla Íslands áttu stóran þátt í skipulagningu þingsins og fóru þeir meðal annars í heimsóknir í nokkur félög til að leita eftir tillögum að dagskrárefni frá ungmennunum sjálfum.

Aðal umræðuefni þingsins voru tvö, hegðun foreldra á knattspyrnumótum og mótamál. Miklar og góðar umræður urðu í hópavinnu og þar urðu til margar góðar ábendingar fyrir KSÍ að horfa til í starfinu.

Fjöldi umsókna barst í ungmennaráð KSÍ sem verður stofnað á næstu dögum. Hlutverk ungmennaráðsins verður að gæta hagsmuna iðkenda í yngri flokkum í íslenskum fótbolta og vera rödd þeirra innan knattspyrnuhreyfingarinnar.

Flott framtak hjá KSÍ! Barna- og ungmennastarfið í knattspyrnuhreyfingunni er gríðarlega umfangsmikið og iðkendurnir sjálfir hafa örugglega margt áhugavert fram að færa varðandi skipulag og framkvæmd þess starfs.

Mynd/KSÍ.