Beint á efnisyfirlit síðunnar

Á döfinni

15

Ný framtíðarsýn ÍSÍ kynnt á Formannafundi ÍSÍ

28.11.2022

 

Árlegur Formannafundur ÍSÍ var haldinn föstudaginn 25. nóvember í Fáksheimilinu í Víðidal. Var það í fyrsta sinn frá árinu 2019 sem formenn og framkvæmdastjórar sambandsaðila ÍSÍ hittast, því síðustu tveir Formannafundir ÍSÍ fóru fram í rafrænu formi á Microsoft Teams, árin 2020 og 2021. Mæting á fundinn var góð, alls 104 formenn og framkvæmdastjórar sambandsaðila ÍSÍ ásamt stjórn og starfsfólki ÍSÍ. Fundarstjórn var í höndum Þóreyjar Eddu Elísdóttur, 1. varaforseta ÍSÍ.

Lárus L. Blöndal, forseti ÍSÍ, setti fundinn og ávarpaði gesti. Hann skýrði frá nýrri framtíðarsýn ÍSÍ og breytingar á skipulagi skrifstofu ÍSÍ. Hann ræddi væntanlegan COVID styrk frá ríkisstjórninni sem og fjármagn í Afrekssjóð fyrir komandi ár, skýrði frá stöðu mála varðandi uppbyggingu þjóðarhallar um innanhússíþróttir og ræddi breytingar á húsnæði ÍSÍ í íþróttamiðstöðinni og flutning höfuðstöðva UMFÍ í miðstöðina.

Andri Stefánsson framkvæmdastjóri ÍSÍ flutti skýrslu stjórnar og fór yfir fjárhagsupplýsingar í fjarveru gjaldkera stjórnar. Fór hann yfir helstu breytingar á skipulagi skrifstofu og helstu verkefni ÍSÍ frá síðasta Formannafundi. Búið er að sameina Almenningsíþróttasvið ÍSÍ og Þróunar- og fræðslusvið ÍSÍ í nýtt svið sem kallast Fræðslu- og almenningsíþróttasvið ÍSÍ. Nýtt svið hefur verið sett á laggirnar, Stjórnsýslusvið ÍSÍ, og Afreks- og Ólympíusvið ÍSÍ verður að Afrekssviði ÍSÍ.

Góðar umræður urðu um skýrslu stjórnar og aðra dagskrárliði. Þegar á leið fund var gert stutt hlé til að gera léttar hléæfingar sem verkefnastjórar heilsueflingar, þær Ásgerður Guðmundsdóttir og Margrét Regína Grétarsdóttir stýrðu, við góðar undirtektir fundargesta.

Framkvæmdastjórn ÍSÍ lagði þrjú mál fyrir Formannafund til kynningar og umræðu. Lárus L. Blöndal forseti ÍSÍ fór yfir lottóreglur og úthlutun en verið er að skoða framtíðar fyrirkomulag þess, í samstarfi við UMFÍ. Andri Stefánsson fór yfir skráningarmál íþróttahreyfingarinnar og Lárus tók því næst aftur til máls og ræddi um sjálfboðaliða í íþróttahreyfingunni. Lárus kom inn á áhyggjur íþróttahreyfingarinnar um mönnun allra þeirra mikilvægu hlutverka sem sjálfboðaliðar sinna fyrir íþróttirnar í landinu og eins þá óvægnu meðferð sem fólk í sjálfboðaliðastarfi hlýtur, sér í lagi á samfélagsmiðlum sem oft endar í umfjöllun hjá fjölmiðlum, þegar ágreiningur eða óvænt atvik koma upp.

Ýmis mál voru rædd undir liðnum önnur mál en að því loknu dró forseti ÍSÍ umræðuna á fundinum saman í stuttu máli, óskaði fundargestum góðrar heimferðar og sleit fundi.

Fundargestum var boðið til kvöldverðar í boði ÍSÍ að loknum fundi.

Fyrir fundinn voru kynningar á nýútgefinni viðbragðsáætlun fyrir íþrótta- og æskulýðsstarf, sem Sigurbjörg Sigurpálsdóttir og Aron Freyr Kristjánsson frá embætti samskiptaráðgjafa höfðu umsjón með. Hvöttu þau alla sambandsaðila ÍSÍ til að kynna sér ítarlega viðbragðsáætlunina og koma henni á framfæri við alla sem koma að íþróttastarfinu. Einnig kynntu þau Halla Kjartansdóttir sviðsstjóri Stjórnsýslusviðs ÍSÍ og Jón Reynisson starfsmaður ÍSÍ verkefni um viðmið ÍSÍ um góða stjórnunarhætti. Verkefnið er byggt á viðmiðum Alþjóðaólympíunefndarinnar, viðmiðum Evrópusambands Ólympíunefnda og rannsókn Play the Game sem Jón Reynir og Garðar Óli Ágústsson unnu að í sínu meistaranámi frá Háskólanum í Molde í Noregi. Verkefnið er langt komið og verður kynnt nánar á næstu mánuðum.

Glærur um skýrslu stjórnar og fjárhagsupplýsingar.

Myndir frá fundinum er að finna á myndasíðu ÍSÍ.

Myndir með frétt