Ársþing ANOC 2022
Ársþing Heimssambands Ólympíunefnda (ANOC) fór fram í Seoul í Suður-Kóreu dagana 19. - 21. október sl. Streymt var frá þinginu á fimm tungumálum. Á þinginu var undirritaður samningur á milli ANOC og Ólympíunefnd Indónesíu um framkvæmd Heimsstrandarleika ANOC sem munu fara fram á Balí 5. - 15. ágúst á næsta ári. Samtals hefur íþróttafólk frá 41 þjóð unnið sér inn keppnisrétt á leikana.
Robin Mitchell, sem hefur verið starfandi forseti samtakanna síðan Sheikh Ahmad Al-Fahad Al-Sabah sagði sig frá forsetaembættinu snemma á síðasta kjörtímabili, var kjörinn forseti ANOC til næstu fjögurra ára. H.E. Sheikh Joaan bin Hamad Al-thani var kjörinn 1. varaforseti en alls eru varaforsetar samtakanna fimm talsins. Báðir voru þeir einir í framboði til þessara embætta.
Á fundinum voru fluttar stöðuskýrslur um ýmis verkefni, svo sem Sumarólympíuleikana 2024 og Vetrarólympíuleikana 2026, sem og Vetrarólympíuleika ungmenna. Einnig voru afgreiddar ýmsar uppfærslur, viðbætur og lagfæringar á regluverki ANOC.
Umhverfismál og sjálfbærni voru í brennidepli. ANOC hefur sett sér það markmið að minnka kolefnisspor samtakanna um 50% fyrir árið 2030 og komast á núllið fyrir árið 2040.
Fulltrúi ÍSÍ á ársþinginu var Andri Stefánsson framkvæmdastjóri. Líney Rut Halldórsdóttir ráðgjafi ÍSÍ var á þinginu sem sérstakur gestur ANOC, sem bauð fimm áhrifakonum úr hverjum álfusamtökum íþrótta sérstaklega til þingsins.