Heimsókn í höfuðstöðvar IOC og ANOC
Dagana 1.- 4. september dvaldi starfsfólk ÍSÍ í Lausanne, höfuðstað Ólympíuhreyfingarinnar.
Þann 1. september heimsótti hópurinn höfuðstöðvar Heimssambands Ólympíunefnda (ANOC). Gunilla Lindberg framkvæmdastjóri ANOC tók á móti hópnum og skýrði frá hlutverki sambandsins og helstu verkefnum. Hún ræddi meðal annars mikilvægi sjálfbærni í íþróttahreyfingunni og næstu ANOC World Beach Games sem haldnir verða á Bali á næsta ári. Afar vel var tekið á móti starfsfólki ÍSÍ og var skemmtilegt fyrir hópinn að hitta starfsfólk ANOC og skoða aðstöðu þeirra í Lausanne.
Þann 2. september var svo komið að því að heimsækja höfuðstöðvar Alþjóðaólympíunefndarinnar (IOC). Höfuðstöðvarnar eru í glæsilegri byggingu í Lausanne, með útsýni fyrir Genfarvatn. Þar tók á móti okkur Pamela Vipond sem hefur verið í forystu Ólympíusamhjálpar IOC í áraraðir. Starfsfólk ÍSÍ var heilan starfsdag hjá IOC og fundaði með helstu sérfræðingum IOC um helstu þætti er tengjast starfi ÍSÍ. Hópurinn fékk höfðinglegar móttökur og var meðal annars farið í skoðunarferð um höfuðstöðvarnar og snæddur þar hádegisverður í boði IOC.
Það var bæði gagnlegt og skemmtilegt fyrir starfsfólk ÍSÍ að hitta loks fólkið á bak við tölvupóstana, skoða aðstæður hjá þessum tveimur yfirsamtökum ÍSÍ og fá góða fræðslu og gagnvirka umræðu um verkefnin. Ólympísk verkefni á hverri Ólympíuöðu (sem telur fjögur ár) hefur fjölgað mikið á síðustu árum og eru nú 13 talsins, þ.e. tvennir Ólympíuleikar (vetur og sumar), tvennir Ólympíuleikar ungmenna (vetur og sumar), fjórar Ólympíuhátíðir Evrópuæskunnar (vetur og sumar), Evrópuleikar, tvennir Heimsstrandarleikar ANOC og tvennir Smáþjóðaleikar. Á hverju ári er því umtalsverð vinna hjá starfsfólki ÍSÍ er tengist undirbúningi ólympískra verkefna. Eins er styrkjakerfi Ólympíusamhjálparinnar gríðarlega mikilvægt fyrir ÍSÍ og sérsamböndin bæði vegna þátttöku í framangreindum verkefnum sem og vegna ýmissa málaflokka.
Hópurinn var svo heppinn að hitta á Sergey Bubka, fyrrum Heims- og Ólympíumeistara í stangarstökki, á skrifstofu IOC og var hann svo elskulegur að vera með á hópmynd með hópnum. Sergey er núverandi formaður Ólympíunefndar Úkraínu og vegna ástandsins þar hefur hann tímabundið aðstöðu í höfuðstöðvum IOC. Það var ekki laust við smá stjörnublindu hjá sumum í starfshópnum við að hitta Sergey enda á hann einstakan feril að baki sem afreksíþróttamaður. Hann var sex sinnum Heimsmeistari og setti 35 heimsmet á sínum ferli. Hann vann gullverðlaun á Ólympíuleikunum í Seoul 1988.
Hópurinn skoðaði í ferðinni Ólympíusafnið í Lausanne sem gefur frábæra yfirsýn yfir sögu Ólympíuleikanna og Ólympíuhreyfingarinnar.