Beint á efnisyfirlit síðunnar

Á döfinni

26.07.2024 - 28.11.2019

París 2024

Ólympíuleikarnir fara fram í París í...
27.07.2024 - 13.08.2024

Keppni í 100 m...

Anton Sveinn McKee keppir í 100 m bringusundi...
22

„Stolt af íslenska hópnum”

02.08.2022

 

Ólympíuhátíð Evrópuæskunnar sem fram fór í Slóvakíu lauk laugardaginn 30. júlí sl. Því miður þurfti að færa lokahátíðina inn í íþróttamannvirki vegna rigningar og þrumuveðurs í Banská Bystrica. Þátttaka hverrar þjóðar var takmörkuð við 10 þátttakendur og skala þurfti alla dagskrá niður til að koma henni fyrir í mannvirkinu. Birnir Freyr Hálfdánarson sundmaður og verðlaunahafi á hátíðinni var fánaberi á lokahátíðinni.

Íslenski hópurinn stóð sig afar vel á hátíðinni og kom heim með ein verðlaun, bronsverðlaun Birnis Freys Hálfdánarsonar í 200m fjórsundi. Tæpt stóð með verðlaunasæti í fleiri greinum og margir úr íslenska hópnum bættu sinn besta árangur á hátíðinni. Tuttugu og fimm ár eru frá því að keppandi frá Íslandi hlaut síðast verðlaun á Ólympíuhátíð Evrópuæskunnar. Það var á hátíðinni í Lissabon árið 1997 þar sem hvorki fleiri né færri en þrír Íslendinar hlutu verðlaun. Einar Karl Hólm Hjartarson hlaut gullverðlaun í hástökki, Örn Arnarson hlaut gullverðlaun í 100m baksundi og silfurverðlaun í 200 m baksundi og Kolbrún Ýr Kristjánsdóttir hlaut bronsverðlaun í 100m baksundi.

Brynja Guðjónsdóttir og Kristín Birna Ólafsdóttir voru fararstjórar í ferðinni. Þær höfðu þetta að segja: „Við erum afar stoltar af íslensku þátttakendunum. Allir stóðu sig afskaplega vel, innan keppnis sem utan. Hópurinn fer heim glaður og ánægður, með gríðarlega dýrmæta reynslu í farteskinu. Ungmennin hafa myndað frábær vinatengsl þvert á íþróttir sem er ekki síður mikilvægt og dýrmætt að búa að. Allir stóðu saman sem einn maður og stemningin var mjög hvetjandi og skemmtileg.“

Kolbrún Hrund Sigurgeirsdóttir og Olga Bjarnadóttir, báðar úr framkvæmdastjórn ÍSÍ sóttu hátíðina og voru ötular við að aðstoða hópinn við hin ýmsustu verkefni sem og að styðja íslensku keppendurna áfram. Einnig var Andri Stefánsson framkvæmdastjóri ÍSÍ á hátíðinni fyrstu daga hennar.

Hópurinn er nú kominn heim aftur, eftir eftirminnilega viku í Slóvakíu.

Myndir með frétt