Beint á efnisyfirlit síðunnar

Á döfinni

05.12.2024 - 05.12.2024

Fundur

Fundur verður haldinn í framkvæmdastjórn ÍSÍ...
22

Nóg um að vera á fjórða keppnisdegi EYOF

28.07.2022

Í dag kepptu íslensku ungmennin í sundi, badminton, frjálsíþróttum, judo og hjólreiðum. 

Sundfólk Íslands byrjaði daginn með 50 metra skriðsundi karla, en þar synti Ýmir Chatenay Sölvasson á 24.51 sekúndum, aðeins 0.07 sekúndu frá sínum besta árangri. Þar á eftir synti Sunna Arnfinnsdóttir 100 metra baksund á 1:10.33 mínútum. Hún hefur nú synt sitt síðasta sund á mótinu. Birnir Freyr Hálfdánarson synti 100 metra flugsund og komst inn í 16 manna úrslit sem fóru fram eftir hádegi og þar synti hann á 55.73 sekúndum, aðeins 0.01 sekúndu frá sínu besta, og er þriðji inn í úrslit sem fara fram á morgun. Ýmir Chatenay stakk sér seinast til sunds í morgun og synti 200 metra skriðsund á tímanum 1:58.01 mínútum sem er 1.81 sekúndu bæting á hans besta árangri og hafnaði hann í 22. sæti. Þar með lauk hann sinni keppni á EYOF.

Í badmintoninu kepptu þau Lilja Bu og Máni Berg Ellertsson í tvenndaleik á móti sterkum keppendum frá Danmörku, þeim Salomon Thomasen og Maria Hojlund Tommerup. Lilja og Máni Berg töpuðu fyrri lotunni 21/6 og seinni lotunni 21/10. Þau hafa því lokið keppni á þessu sterka móti. 

Sigríður Dóra keppti í götuhjólreiðum en hjólaðir voru samtals 57,8 km sem eru tveir hringir í brautinni. Sigríður náði að halda ágætlega í hópinn megnið af fyrri hringnum en undir lok hans var hún komin með verk í bakið og hitinn var farinn að segja til sín og var tekin sú ákvörðun að fara ekki af stað í seinni hringinn. 

Þeir Brynjar Logi Friðriksson og Ísak Gunnlaugsson kepptu einnig í götuhjólreiðum í dag.  Það voru farnir samtals 2 heilir hringir í brautinni eða 65,8 km. Brynjar Logi og Ísak komu sér vel fyrir í rásmarkinu en því miður lenti Ísak í því í rásmarkinu að detta fram fyrir sig og missa keðjuna og var því strax búin að missa af fremsta hóp en hann fékk hjálp við að laga keðjuna og rauk af stað og náði aftast í hópinn. Brynjar kláraði fyrri hringin en fór ekki af stað í seinni hringinn.  Ísak hélt í hópinn með þessum sömu aðilum mest af hring tvö og kláraði keppnina með stæl á 1:46:03, virkilega góður árangur.

Þeir Skarphéðinn Hjaltason og Jakub Óskar Tomczyk kepptu í judo í dag. Skarphéðinn keppti í -90 kg flokki og Jakub í -81 kg flokki. Báðir lentu þeir á móti mjög sterkum andstæðingum sem höfðu betur gegn okkar strákum sem því féllu úr keppninni. Þess má geta að báðir voru þeir að keppa við þá sem enduðu sem sigurvegarar mótsins í sýnum þyngdarflokki. 

I frjálsíþróttum kepptu þau Ísold Sævarsdóttir og Birna Jóna Sverrisdóttir. Ísold keppir í sjöþraut og átti frábæran dag. Ísold bætti sig í þrem greinum af fjórum  og er í 6. sæti eftir fyrri dag með 3081 stig. Á morgun er seinni dagur sjöþrautarinnar þar sem langstökk, spjótkast og 800m fara fram. Birna Jóna keppti í sleggjukasti og kastaði lengst 47.22m en hún á lengst 51.65m í greininni. Arnar Logi Brynjarsson sem keppti í 100m fyrr á þessu móti og náði þar 15. sæti var einnig skráður í 200m í dag en hóf ekki keppni. Þess ber að geta að allir íslensku iðkendurnir í frjálsíþróttum eru á yngra ári og eiga möguleika á að koma aftur á EYOF að ári liðnu.

Myndir af leikunum má nálgast hér á myndasíðu ÍSÍ.