Beint á efnisyfirlit síðunnar

Á döfinni

26

Keppnisbann yfirvofandi ef starfsskýrslu er ekki skilað!

01.07.2022

Skil á starfsskýrslum til ÍSÍ fóru i ár fram í nýju skilakerfi ÍSÍ og UMFÍ. Almennt hafa skil gengið vel og þakkar ÍSÍ þeim sem þegar hafa staðið í skilum kærlega fyrir skilin, þolinmæðina og jákvæð viðbrögð. Nýja kerfið hefur virkað vel en eins og alltaf er með ný kerfi þá þarf að fínpússa ýmislegt í ferlinu eftir þetta fyrsta rennsli skila. Verður farið í þá úrbótavinnu eftir sumarið.

Enn eiga þó 35% eininga innan ÍSÍ eftir að ljúka starfsskýrsluskilum. Úrvinnsla á gögnum sem skilað er inn í starfsskýrslum er orðin aðkallandi en um er að ræða mikilvægar tölfræðiupplýsingar sem notaðar eru á margvíslegan hátt í starfsemi ÍSÍ og UMFÍ. Heimild er í lögum ÍSÍ um beitingu keppnisbanns vegna vanskila á starfsskýrslum, sjá 8. grein laga ÍSÍ.

Framkvæmdastjórn ÍSÍ ákvað því á fundi sínum í gær, 30. júní, að þau félög sem ekki hafa skilað inn starfsskýrslu til ÍSÍ fyrir þann 15. ágúst nk. verði sett í keppnisbann frá og með þeim degi og þar til skýrslu verður skilað.

ÍSÍ hvetur þá sem ekki hafa gengið frá skilum nú þegar að gera það sem allra fyrst svo komist verði hjá ofangreindum refsiaðgerðum. Keppnisbann hefur áhrif á iðkendur viðkomandi einingar og þátttöku þeirra í mótum sérsambanda ÍSÍ.