Beint á efnisyfirlit síðunnar

Á döfinni

26

Ár þar til Evrópuleikarnir verða settir

21.06.2022

Í dag er aðeins eitt ár þar til næstu Evrópuleikar verða settir. Um er að ræða þriðju leikana frá upphafi og að þessu sinni verða leikarnir í suðurhluta Póllands dagana 21. júní til 2. júlí 2023. Keppt verður í 24 íþróttagreinum (þar af 18 Ólympískum greinum) á leikunum, þ.e. bogfimi, frjálsíþróttum, badminton, körfuknattleik (3x3), strandhandknattleik, strandknattspyrnu, hnefaleikum, breikdansi, kanósiglingum, hjólreiðum, skylmingum, júdó, karate, sparkboxi, fimmtarþraut, fjallahlaupi, padel, rúgby 7, skotíþróttum, sumarskíðastökki, klifri, borðtennis, taekwondo, teqball og þríþraut. 

Leikarnir hafa þá sérstöðu að þeir fara fram í mannvirkjum sem til eru nú þegar í borginni Kraká og héruðunum Litla-Póllandi, Slesíu og Neðri-Slesíu og í nokkrum skammtíma mannvirkjum sem reist hafa verið einungis fyrir leikana og tekin verða niður eftir leika. Áhersla er lögð á sjálfbærni í öllu er viðkemur leikunum til að gera kolefnisspor viðburðarins sem allra minnst. 

Í fréttatilkynningu frá Evrópusambandi Ólympíunefnda (EOC) er að finna tilvitnun í forseta samtakanna, Spyros Capralos: „Við erum mjög spennt að fara inn í lokaundirbúning fyrir þriðju útgáfu Evrópuleikanna. Þrátt fyrir þær áskoranir sem við höfum staðið frammi fyrir, hef ég fulla trú á því að leikarnir muni setja nýtt viðmið fyrir fyrsta flokks fjölgreinaviðburði í Evrópu. Leikarnir munu sýna fram á mikilvægt hlutverk íþrótta við boðun heimsfriðs og samstöðu, á sama tíma og þeir verða gott fordæmi fyrir framtíðar gestgjafaborgir slíkra leika, sem geta borið þá arfleifð langt inn í framtíðina."

Hér má nálgast drög að keppnisdagskrá leikanna.

Myndir með frétt