Heimsókn frá Rúmeníu
Á dögunum kom sendinefnd frá Rúmeníu í heimsókn í höfuðstöðvar ÍSÍ í Laugardalnum. Sendinefndin var að kynna sér starfsemi íþróttafélaga fatlaðra á Íslandi, stuðning sveitarfélaga, íþróttasamtaka, regluverkið og annað er tengist íþróttum fatlaðra. Andri Stefánsson framkvæmdastjóri ÍSÍ tók á móti hópnum og kynnti skipulag og starfsemi íþróttahreyfingarinnar á Íslandi.
Í hópnum voru fulltrúar Special Olympics í Rúmeníu og formenn nýstofnaðra íþróttafélaga þar. Með stofnun 15 íþróttafélaga víða um landið telur forsvarsfólk Special Olympics í Rúmeníu að starfið fái meiri viðurkenningu en þá skapast skilyrði til að setja á fót samtök sem halda utan um íþróttastarf félaganna á landsvísu. Special Olympics í Rúmeníu hefur þurft að berjast fyrir tilverurétti sínum og starfið er ekki viðurkennt sem íþróttastarf á sama hátt og verkefni tengd Paralympics. Staðan er því gjörólík því sem er á Íslandi þar sem unnið er í góðu samstarfi með öll verkefni tengd Paralympics og Special Olympics.
Special Olympics á Íslandi og í Rúmeníu hófu samstarf árið 2015 í gegnum YAP verkefnið, Young Athlete Project. Nú stendur yfir þriggja ára samstarf Íslands, Rúmeníu, Slóvakíu, Litháen, Bozniu Herzegoveniu og Svartfjallalands þar sem áhersla er á fræðslu þjálfara og tækifæri fyrir öll börn.
Hópurinn heimsótti einnig í Íslandsferðinni höfuðstöðvar UMFÍ, nokkur íþróttafélög á höfuðborgarsvæðinu og Sólheima í Grímsnesi.
Anna Karólína Vilhjálmsdóttir hjá Íþróttasambandi fatlaðra (ÍF) hafði umsjón með heimsókninni fyrir hönd ÍF.
Sjá nánari upplýsingar á heimasíðu ÍF.