„Veitir okkur mikið og gott aðhald”
Ungmennafélagið Kormákur á Hvammstanga fékk viðurkenningu sem Fyrirmyndarfélag ÍSÍ á hátíð félagsins á félagssvæðinu í Kirkjuhvammi þriðjudaginn 31. maí síðastliðinn. Það var Elísa Ýr Sverrisdóttir formaður félagsins sem tók á móti viðurkenningunni úr hendi Viðars Sigurjónssonar skrifstofustjóra ÍSÍ á Akureyri. Á myndinni eru frá vinstri þau Viðar Sigurjónsson og Elísa Ýr og ungir iðkendur Kormáks, þau Máney Dýrunn Þorsteinsdóttir og Anton Einar Mikaelsson, með fána Fyrirmyndarfélaga á milli sín.
„Stjórn Ungmennafélagsins Kormáks taldi mjög mikilvægt að fara í gegnum þá vinnu sem þurfti til að ná markmiðum ÍSÍ um Fyrirmyndarfélag þar sem það stuðlar að faglegra starfi félagsins og veitir okkur mikið og gott aðhald til að sinna t.d. forvarnahlutverki íþróttastarfsins vel”, sagði Elísa Ýr formaður Kormáks af þessu tilefni.
ÍSÍ óskar félaginu innilega til hamingju með viðurkenninguna.