Beint á efnisyfirlit síðunnar

Á döfinni

10.10.2024 - 10.10.2024

Fundur

Fundur verður haldinn í framkvæmdastjórn ÍSÍ...
25.10.2024 - 26.10.2024

Landsþing LH 2024

Ársþing Landssambands hestamannafélaga verður...
01.11.2024 - 30.11.2024

Syndum

Verkefnið Syndum hefst 1. nóvember og stendur...
21.11.2024 - 21.11.2024

Fundur

Fundur verður haldinn í framkvæmdastjórn ÍSÍ...
8

Kveðja frá Íþrótta- og Ólympíusambandi Íslands

18.05.2022

 

Benedikt Geirsson kom víða við í íþróttahreyfingunni og var kjörinn í framkvæmdastjórn ÍSÍ árið 1997 þegar Íþróttasamband Íslands og Ólympíunefnd Íslands voru sameinuð í Íþrótta- og Ólympíusamband Íslands eins og sambandið heitir í dag. Þar sat hann í stjórn til ársins 2006 og var í mikilvægum embættum sem formaður afrekssviðs ÍSÍ og sem ritari stjórnar. Benedikt kom þannig að mótun nýrra heildarsamtaka þar sem horfa þurfti til þess fjölbreytileika sem íþróttirnar standa fyrir.

Benedikt starfaði alla tíð ötullega að framgangi skíðaíþrótta, bæði á vegum skíðadeildar Fram, Skíðaráðs Reykjavíkur og sem formaður Skíðasambands Íslands. Benedikt var sæmdur Gullmerki ÍSÍ árið 1996, Heiðurskrossi ÍSÍ árið 2008 og á Íþróttaþing ÍSÍ 2015 var Benedikt kjörinn heiðursfélagi ÍSÍ, en þá viðurkenningu hljóta einungis þeir sem starfað hafa ötullega og af hugsjón innan vébanda íþróttahreyfingarinnar um langt árabil. 

Benedikt var tíður gestur í Íþróttamiðstöðinni í Laugardal og mætti vel á þá viðburði sem Heiðursfélögum ÍSÍ var boðið til og hafði áhuga á því starfi sem fram fór á vegum sambandsins. Þrátt fyrir að veikindin væru sýnilega farin að leggjast þungt á hann í apríl síðastliðnum þá mætti hann á afhendingu viðurkenninga til íþróttafólks sérsambanda ÍSÍ og bar stoltur Heiðurskross ÍSÍ við það tilefni. Þrátt fyrir að vitað væri að hann glímdi við erfið veikindi þá var fráfall hans bæði óvænt og ótímabært.

Að leiðarlokum standa eftir minningar um glæsilegan fulltrúa hreyfingarinnar, sem lagði mikið af mörkum til íþróttahreyfingarinnar, á öllum stigum hennar, þessarar stærstu sjálfboðaliðahreyfingu á Íslandi.

Stjórn og starfsfólk ÍSÍ kveður Benedikt með þakklæti í huga fyrir áratuga vináttu og frábær störf í þágu íþróttahreyfingarinnar á Íslandi. Eiginkonu hans, fjölskyldu og aðstandendum öllum sendum við dýpstu samúðarkveðjur.

Guð blessi minningu Benedikts Geirssonar.

Lárus L. Blöndal

forseti