Beint á efnisyfirlit síðunnar

Á döfinni

26

Benedikt endurkjörinn formaður UÍA

25.04.2022

 

Ársþing Ungmenna- og íþróttasambands Austurlands (UÍA) fór fram sunnudaginn 24. apríl á Seyðisfirði. 

Benedikt Jónsson var endurkjörinn sem formaður UÍA og allir úr fyrrverandi stjórn halda áfram sínum störfum. 

Haraldur Gústafsson var valinn íþróttamaður UÍA árið 2021. Haraldur vann báða Íslandsmeistaratitlana í bogfimi (innandyra og utandyra) í Ólympískum sveigboga árið 2021. Hann vann einnig báða Íslandsmeistarartitlana í 50+ (öldunga). Haraldur vann öll önnur mót í sveigboga sem hann keppti í innanlands á árinu 2021.Í innandyra heimsbikarmótaröð heimssambandsins (World Archery Indoor World Series - IWS 2021-2022) var Haraldur um tíma efstur á heimslista mótaraðarinnar og við lok ársins 2021 var hann meðal efstu 10 í mótaröðinni. Þegar öllum mótum sem tengd voru við heimsbikarmótaröðina var lokið í febrúar 2022 endaði Haraldur í 22 sæti í mótaröðinni en yfir 600 manns tóku þátt í henni.

Auður Vala Gunnarsdóttir hlaut Hermannsbikarinn, hvatningarverðlaun UÍA fyrir sitt starf fyrir fimleikadeild Hattar. Auður Vala var ein af fyrstu iðkendum fimleikadeildar Hattar þegar deildin byrjaði 1984 en deildin var stofnuð formlega 1986. Árið 1989 var Auður beðin að þjálfa hjá fimleikadeild Hattar á Egilsstöðum og þjálfaði til ársins 1991. Árið 2000 tók Auður Vala að sér starf yfirþjálfara fimleikadeildar Hattar. Nánast síðan þá hefur Auður starfað sem yfirþjálfari og séð um að staðið séð faglega að öllu starfi innan deildarinnar og náð glæsilegum árangri. Hún hefur verið sannur leiðtogi á þessu sviði hjá deildinni, Auður tók sér frí frá yfirþjálfun haustið 2018 en tók aftur við sem yfirþjálfari haustið 2020.

Ólafía Þórunn Stefánsdóttir, Ólöf Hulda Sveinsdóttir og Bryndís Aradóttir voru allar sæmdar starfsmerki UÍA á þinginu.

Andri Stefánsson framkvæmdastjóri ÍSÍ sótti þingið fyrir hönd sambandsins og flutti þar ávarp.

Myndir með frétt