Nýtt skilakerfi ÍSÍ og UMFÍ tekið í notkun
Nýju skilakerfi ÍSÍ og UMFÍ fyrir skil á árlegum, lögbundnum starfsskýrslum allra eininga í íþróttahreyfingunni, var hleypt af stokkunum í beinu streymi í Íþróttamiðstöðinni í Laugardal í gær.
Lárus L. Blöndal, forseti ÍSÍ og Jóhann Steinar Ingimundarson formaður UMFÍ, voru viðstaddir opnun kerfisins ásamt fleiri góðum gestum. Bæði Lárus og Jóhann Steinar ávörpuðu samkomuna sem og Markús Máni M. Maute framkvæmdastjóri Abler sem sá um gerð kerfisins.
Í ávarpi sínu kom forseti ÍSÍ inn á mikilvægi þess að safna gögnum um umfang og samsetningu íþróttahreyfingarinnar. Sagði hann það hafa komið glögglega í ljós á tímum kórónuveirunnar þegar leggja þurfti mat á ýmsa þætti í rekstri hreyfingarinnar vegna fjárstuðnings ríkisins til hreyfingarinnar. Þá var hægt að bregðast skjótt við og vinna upplýsingar beint upp úr starfsskýrsluskilum sem nýttust við útreikninga og mat. Hann lýsti yfir ánægju sinni með samstarfið við Abler og sagðist þess fullviss að nýja kerfið muni auðvelda skilin og gera þau skilvirkari og betri.
Nýja skilakerfið er samstarfsverkefni ÍSÍ og UMFÍ. Kerfið mun leysa algerlega af hólmi starfsskýrsluskil í Felixkerfinu og félaga- og umsýsluhluti Felixkerfisins mun einnig hægt og rólega leggjast af á næstu misserum. Þeir aðilar sem hafa notað Felix sem félagakerfi verða því að fara að huga að öðrum lausnum í þeim efnum.
Kennsla á nýja kerfið hófst strax í dag en bæði verður boðið upp á staðbundna kennslu og fjarkennslu.
ÍSÍ hvetur allar einingar innan ÍSÍ að vanda vel starfsskýrsluskilin og fara vel yfir öll gögn sem lesin verða inn í nýja kerfið. Við þessi tímamót skapast einstakt tækifæri til að endurskoða allar skrár, lagfæra og leiðrétta þannig að starfsskýrsluskilin endurspegli raunverulegt umfang hreyfingarinnar.