Beint á efnisyfirlit síðunnar

Á döfinni

05.12.2024 - 05.12.2024

Fundur

Fundur verður haldinn í framkvæmdastjórn ÍSÍ...
22

Heiðranir á 100. ársþingi HSK

01.04.2022

 

Ársþing Héraðssambandsins Skarphéðins (HSK) fór fram í Þingborg í Flóahreppi í gær, 31. mars. Góð mæting var á þingið, sem var 100. ársþing sambandsins og voru móttökur heimafólks úr Umf. Þjótanda og Flóahreppi frábærar. Allir þingfulltrúar fengu töskur merktar sambandinu og Flóahreppur bauð þingfulltrúum og gestum upp á tvíréttaðan kvöldverð. Kom það sterkt fram á þinginu hversu ánægðir þingfulltrúar voru með að geta á ný hist á þingi á hefðbundinn hátt og rætt saman augliti til auglitis um hagsmunamál hreyfingarinnar.

Ellefur tilllögur, sem allar voru lagðar fram í nafni stjórnar, voru teknar fyrir á þinginu og voru þær allar samþykktar fyrir utan tillögu um fækkun þingfulltrúa. Þinggerð verður birt á heimasíðu HSK á næstu dögum. 

Baldur Gauti Tryggvason gaf ekki kost á sér til endurkjörs og var Lárus Ingi Friðfinnsson úr Hamri kjörinn í hans stað. Stjórn HSK skipa Guðríður Aadnegard formaður, Guðmundur Jónasson gjaldkeri, Anný Ingimarsdóttir ritari, Helgi S. Haraldsson varaformaður og Jón Þröstur Jóhannesson meðstjórnandi. Varastjórn skipa þau Gestur Einarsson, Olga Bjarnadóttir og Lárus Ingi Friðfinnsson.

Á þinginu var tilkynnt um val á íþróttakarli og íþróttakonu HSK 2021. Það voru þau Heiðrún Anna Hlynsdóttir golfkona og Styrmir Snær Þrastarson körfuknattleiksmaður sem voru útnefnd íþróttakona og íþróttakarl HSK árið 2021. HSK veitti einnig nokkur sérverðlaun á þinginu, líkt og undanfarin ár. Umf. Selfoss var stigahæsta félagið, Körfuknattleiksdeild Umf. Þórs hlaut unglingabikar HSK, Umf. Hvöt fékk foreldrastarfsbikarinn og þá var Sigmundur Stefánsson á Selfossi valinn öðlingur ársins. Guðríður Aadnegard, formaður HSK veitti, fyrir hönd stjórnar HSK eitt gullmerki og eitt silfurmerki á þinginu. Aðalsteinn Sveinsson Umf. Þjótanda var sæmdur gullmerki HSK og Fanney Ólafsdóttir úr sama félagi var sæmd silfurmerki HSK.

Hafsteinn Pálsson 2. varaforseti ÍSÍ og Halla Kjartansdóttir skrifstofustjóri ÍSÍ sóttu þingið fyrir hönd ÍSÍ. Hafsteinn ávarpaði þingið og sæmdi, fyrir hönd stjórnar ÍSÍ, þau Maríu Rósu Einarsdóttur úr Íþróttafélaginu Dímon og Ólaf Þórisson úr Hestamannafélaginu Geysi Silfurmerki ÍSÍ.

Myndskreytt ársskýrsla var lögð fram á þinginu og má sjá vefútgáfu skýrslunnar á www.hsk.is.