Opnað fyrir starfsskýrsluskil í nýju kerfi 4. apríl!
Samkvæmt 8. grein laga ÍSÍ þá þurfa allir sambandsaðilar ÍSÍ og félög innan þeirra vébanda að skila inn starfsskýrslu til ÍSÍ fyrir 15. apríl ár hvert. Vegna innleiðingar á nýju skilakerfi hefur skilafrestur verið framlengdur til 1. maí nk.
Að þessu sinni verður starfsskýrslum ekki skilað í Felix heldur í nýju skilakerfi ÍSÍ og UMFÍ. Lokið er við prófanir á nýja kerfinu og verður það formlega opnað fyrir starfsskýrsluskil 4. apríl nk.
Við gerð nýja kerfisins var lagt upp með að notendaviðmótið sé sem einfaldast og flestar upplýsingar eru forskráðar til hagræðingar fyrir notendur. Tenging verður við upplýsingar úr Sportabler og einnig verða upplýsingar um viðkomandi félag sóttar sjálfvirkt frá Skattinum.
Í byrjun apríl verður boðið upp á kynningu og fræðslu á nýja kerfinu. Þegar nær dregur verða nánari upplýsingar um fyrirkomulag sendar á hvert hérað ásamt hlekk á skráningarsíðu.
Starfsskýrsluskil á árinu 2022 fela sér upplýsingar um félagsmenn og iðkendur á síðasta starfsskýrslutímabili, þ.e. tímabilinu 1. janúar til 31. desember 2021 ásamt upplýsingum úr ársreikningum fyrir síðasta starfsár (2021) og upplýsingar um stjórn og starfsfólk frá síðasta aðalfundi/ársþingi sem haldið var fyrr á þessu ári (2022).
Nánari upplýsingar gefur Elías Atlason verkefnastjóri, netfang: elias@isi.is