Beint á efnisyfirlit síðunnar

Á döfinni

15

Lokahátíð Vetrarólympíuhátíðar Evrópuæskunnar

28.03.2022

Á föstudag fór fram lokahátíð Vetrarólympíuhátíðar Evrópuæskunnar þar sem leikunum var slitið og ólympíueldurinn færður Ítölum en næsta Vetrarólympíuhátíð Evrópuæskunnar fer fram í Maribor á Ítalíu árið 2023. Fánaberar frá hverri þjóð gengu með þjóðfána um torgið og var skíðagöngumaðurinn Ævar Freyr Valbjörnsson fánaberi Íslands.

Á lokahátíðinni voru einnig veitt háttvísisverðlaun. Háttvísisverðlaunin eru veitt einni stúlku og einum dreng sem hafa sýnt framúrskarandi háttvísi í alla staði og sannkallaðan ólympíuanda. Háttvísisverðlaunin hlýtur sá keppandi sem hefur komið fram af sanngirni, virðingu, samstöðu og háttvísi bæði í keppni og utan hennar.

Íslenski hópurinn er gríðarlega stoltur að því að snjóbrettakappinn Arnór Dagur Þóroddsson hlaut háttvísisverðlaun drengja á leikunum í ár. Þetta er mikill heiður og sýnir karakterinn sem Arnór Dagur býr yfir þar sem hann stóð upp úr hvað varðar prúðmennsku, hvatningu og háttvísi á leikunum en tæplega 1000 drengir frá 44 þjóðum tóku þátt á leikunum sem snýir hve afrekið er stórfenglegt hjá Arnóri Degi.

Í verðlaunaafhendingunni var Arnóri lýst sem fyrirmynd hvað háttvísi varðar, keppandi sem sýndi sannan ólympíuanda alla vikunna og hvatti aðra áfram með ástríðu sinni og áhuga á íþróttinni. Arnór Dagur sýndi hvað raunverulegur Vuokatti-andi er.

Íslenski hópurinn hefur staðið sig mjög vel á leikunum og sýnt mikla samstöðu. Gleði og vinátta hefur einkennt hópinn sem kom heim um helgina eftir vel heppnaða leika og eftirminnilega viku í Vuokatti.


Myndir með frétt