Beint á efnisyfirlit síðunnar

Á döfinni

26

Landsátakið Syndum, formlega hafið.

02.11.2021

Syndum, landsátak í sundi hófst með formlegum hætti í hádeginu í dag í Laugardalslaug. Markmiðið með Syndum er að hvetja almenning til að hreyfa sig með því að synda saman  hringinn í kringum Ísland.  Landsmenn skrá sig og metrana sem þeir synda á forsíðu www.syndum.is  Þar verður einnig hægt að sjá hversu marga hringi landsmenn hafa synt.

Verum öll með!

Í Laugardalslaug í dag fluttu ávörp, Andri Stefánsson, starfandi framkvæmdastjóri Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands og Björn Sigurðsson, formaður Sundsambands Íslands. Andri hvatti viðstadda til nota sund sem daglega hreyfingu og minnti á sund er frábær hreyfing og fjölskyldu samvera.

Björn þakkaði ÍSÍ fyrir að koma þessu verkefni af stað og benti á að sund hefur mikla sérstöðu á Íslandi og skipar stóran sess í huga landsmanna. Sund er góð hreyfing fyrir alla.  Björn benti jafnframt á öflugt starf sundfélaga á Íslandi og að nú væru þrír fulltrúar Íslands á Evrópumeistaramótinu í sundi í 25m laug sem hófst í Kazan í morgun.

Um verkefnið:

Íþrótta- og Ólympíusamband Íslands í samstarfi við Sundsamband Íslands stendur fyrir landsátaki í sundi frá 1. - 28. nóvember 2021. Syndum er heilsu- og hvatningarátak sem höfðar til allra landsmanna. Sund er fyrir alla óháð aldri, bakgrunni eða líkamlegu ástandi.

Sund er heilsubætandi og góð leið til að styrkja hjarta- og æðakerfið, lungu og vöðva líkamans. Sund er jafnframt skemmtileg tómstundariðja. Þetta átak er framhald af Íþróttaviku Evrópu sem tókst einkar vel í ár. Markmið Íþróttaviku Evrópu er að kynna íþróttir og almenna hreyfingu um alla Evrópu og sporna þannig við auknu hreyfingarleysi meðal almennings.

Til þess að taka þátt þarf að skrá sig inn á www.syndum.is og fara í „Mínar skráningar“. Einfalt er að   velja   sér   notendanafn   og   lykilorð   og skrá   síðan sínar   sundvegalengdir. Þeir   sem eiga notendanafn í Lífshlaupinu eða Hjólað í vinnuna geta notað það til að skrá sig inn. Þeir sem skrá sig og taka þátt geta átt von á að verða  dregnir  út  og vinna veglega  vinninga. Á  heimasíðu Syndum, www.syndum.is, eru allar nánari upplýsingar um verkefnið auk ýmiss  annars fróðleiks og upplýsinga um sundlaugar landsins.

Myndir með frétt