"Hjálpar okkur að gera betur"
Hestamannafélagið Sleipnir fékk endurnýjun viðurkenningar félagsins sem Fyrirmyndarfélag ÍSÍ á formannafundi Landssambands hestamannafélaga laugardaginn 30. október síðastliðinn. Það var Kolbrún Hrund Sigurgeirsdóttir úr framkvæmdastjórn ÍSÍ og formaður fagráðs Þróunar- og fræðslusviðs ÍSÍ sem afhenti formanni Sleipnis, Sigríði Magneu Björgvinsdóttur, viðurkenninguna. Á myndinni eru frá vinstri, Sigríður Magnea og Kolbrún Hrund.
"Viðurkenningin styður við fagmennsku í æskulýðsstarfi íþróttafélaga með því að fara með okkur í gegnum rýni á starfsemi félagsins. Sú naflaskoðun sem fylgir nafnbótinni Fyrirmyndarfélag ÍSÍ hjálpar okkur að gera betur auk þess sem titillinn skilar sér í velvilja sveitarfélaga til þeirra sem hann bera" sagði Sigríður Magnea formaður Sleipnis af þessu tilefni.