Beint á efnisyfirlit síðunnar

Á döfinni

05.12.2024 - 05.12.2024

Fundur

Fundur verður haldinn í framkvæmdastjórn ÍSÍ...
22

Syndum! Landsátak í sundi 1.-28. nóvember 2021

27.10.2021

 

Syndum! Landsátak í sundi 1.-28. nóvember 2021

Lárus L. Blöndal, forseti ÍSÍ, um átakið:

„Íþrótta- og Ólympíusamband Íslands stendur fyrir landsátaki í sundi 1. - 28. nóvember nk.  Um er að ræða heilsu- og hvatningarátak sem höfðar til allra landsmanna. Markmiðið með átakinu er að hvetja almenning til þess að hreyfa sig oftar og meira í sínu daglega lífi og nota meðal annars sund til þess.

ÍSÍ hefur í gegnum tíðina hvatt landsmenn til að huga að sinni daglegu hreyfingu í gegnum fjölbreytt verkefni sambandsins og nú er komið að landsátaki í sundi. Landsátakið, sem er skipulagt af Almenningsíþróttasviði ÍSÍ í samstarfi við Sundsamband Íslands (SSÍ), er framhald af Íþróttaviku Evrópu. Markmið Íþróttaviku Evrópu er að kynna íþróttir og almenna hreyfingu um alla Evrópu og sporna þannig við auknu hreyfingarleysi meðal almennings.

Síðustu misserin hafa sýnt okkur með óyggjandi hætti að það skiptir gríðarlegu máli að vera vel á sig kominn, bæði líkamlega og andlega, og góð heilsa er ómetanlegt. Það er margt sem við getum gert til að bæta og viðhalda líkama og sál og allt telur í pottinn.

Íslendingar hafa alltaf verið duglegir að stunda sund og við búum svo vel að hafa góðar sundlaugar víða um landið. Sund er fyrir alla, óháð aldri, bakgrunni eða líkamlegu ástandi. Það er tilvalin þjálfunaraðferð sem styrkir hjarta- og æðakerfið, lungu og vöðva líkamans en er einnig frábær og skemmtileg tómstundaiðja sem öll fjölskyldan getur stundað saman.

ÍSÍ vonast til að landsmenn á öllum aldri taki þátt í átakinu, skelli sér í laugarnar í nóvember og skrái syntar vegalengdir á síðu átaksins, www.syndum.is.

Syndum okkur í gang fyrir veturinn!

Myndir með frétt