Beint á efnisyfirlit síðunnar

Á döfinni

01.11.2024 - 30.11.2024

Syndum

Verkefnið Syndum hefst 1. nóvember og stendur...
30

Stofnþing Klifursambands Íslands

27.09.2021

Stofnþing Klifursambands Íslands var haldið í Íþróttamiðstöðinni í Laugardal í dag, 27. september 2021. Með stofnun þessa nýja sérsambands eru sérsambönd ÍSÍ orðin 34 talsins. Sex íþróttahéruð og sex íþróttafélög áttu þingfulltrúa á þinginu. 

Klifuríþróttin hefur vaxið hratt á Íslandi undanfarin ár. Klifurnefnd ÍSÍ var sett á laggirnar árið 2018 og vann hún ötullega að eflingu og útbreiðslu íþróttarinnar á landsvísu. Klifuríþróttin er nú stunduð í sex íþróttafélögum í sex íþróttahéruðum og er von á frekari fjölgun félaga/deilda um klifur á næstu mánuðum.

Manuela Magnúsdóttir var kjörin fyrsti formaður sambandsins en aðrir í stjórn Klifursambandsins voru kjörin til tveggja ára þau Rúna Thorarensen og Vikar Hlynur Þórisson og til eins árs þeir Örn Árnason og Elmar Orri Gunnarsson.Varamenn stjórnar voru kjörin þau Ásrún Mjöll Stefánsdóttir, Arnór Már Guðmundsson og Björn Baldursson.

Lög sambandsins voru samþykkt samhljóða. Íþróttin varð ólympísk íþrótt þegar skipuleggjendur Ólympíuleikanna í Tókýó völdu hana sem eina af þeim valgreinum sem skipuleggjendum er heimilt að velja fyrir leikana í viðkomandi landi. Klifurkeppnin á Ólympíuleikunum var æsispennandi og áhorf á greinina var mikið. Ljóst er að hún hefur skapað sér sess á leikunum þar sem framkvæmdanefnd Ólympíuleikanna í París hefur þegar tilkynnt að klifur verði einnig á meðal keppnisgreina þar árið 2024.

Alþjóðaklifursambandið sendi formlega kveðju inn á stofnþingið með hamingjuóskum til sambandsins og góðum framtíðaróskum.

Lárus L. Blöndal forseti ÍSÍ setti þingið og stýrði því. ÍSÍ bauð þingfulltrúum og gestum upp á veitingar að þingi loknu í tilefni þessara tímamóta.

Íþrótta- og Ólympíusamband Íslands óskar hinu nýja sambandi og nýkjörinni stjórn innilega til hamingju með þennan áfanga og velfarnaðar í starfi.

 

Myndir með frétt