Beint á efnisyfirlit síðunnar

Á döfinni

7

Yfirlýsing frá Íþrótta- og Ólympíusambandi Íslands og Knattspyrnusambandi Íslands

22.09.2021

 

Stjórn Knattspyrnusambands Íslands (KSÍ) hefur farið þess á leit við Íþrótta- og Ólympíusamband Íslands (ÍSÍ), sem eftirlitsaðili með sérsamböndum, að ÍSÍ setji á stofn nefnd til að gera úttekt á viðbrögðum og málsmeðferð KSÍ vegna kynferðisofbeldismála sem tengst hafa leikmönnum í landsliðum Íslands. 

Nú hefur sú nefnd verið skipuð og í henni eiga sæti Dr. Hafrún Kristjánsdóttir, sálfræðingur, Kjartan Bjarni Björgvinsson, héraðsdómari, sem jafnframt er formaður nefndarinnar og Rán Ingvarsdóttir, lögfræðingur. Úttektarnefnd ÍSÍ er sjálfstæð og óháð í störfum sínum. KSÍ ábyrgist að nefndin fái aðgang að öllum þeim gögnum sem það hefur með höndum.

Nefndinni er ætlað að skoða eftirfarandi:

  • Fara yfir þá atburðarás sem leiddi til afsagnar formanns og fyrirhugaðrar afsagnar stjórnar KSÍ í september 2021 ásamt því að bregðast við ásökunum sem fram hafa komið m.a. um þöggun innan KSÍ. 
  • Staðreyna eins og kostur er hvaða vitneskja hafi verið innan stjórnar og / eða starfsmanna KSÍ um að leikmenn landsliða eða aðrir sem starfa fyrir KSÍ hafi beitt kynbundnu eða kynferðislegu ofbeldi á árunum 2010 – 2021.

  • Lýsa því hvernig eftirliti og viðbrögðum við slíkum atvikum var háttað innan KSÍ á fyrrgreindu tímabili.

  • Taka til athugunar hvort einhverjar þær aðstæður séu uppi innan KSÍ sem hamla þátttöku kvenna í starfi þess. Þetta er gert í tengslum við fullyrðingar sem fram  hafa komið í opinberri umræðu um að KSÍ sé karllægt og fráhrindandi fyrir konur. Í því sambandi verður skoðað hvort skipulag KSÍ eða aðrir þættir í starfseminni séu hamlandi fyrir þátttöku kvenna í starfinu.

  • Leggja grunn að tillögum um úrbætur á verklagi eða um frekari viðbrögð.  

Úttektarnefnd ÍSÍ hefur störf nú þegar og er ætlað að ljúka störfum eigi síðar en í nóvember nk. Nefndin mun skila niðurstöðum af sér til framkvæmdastjórnar ÍSÍ. Hægt er að koma upplýsingum á framfæri til nefndarinnar á netfangið uttektarnefnd@isi.is

Nánari upplýsingar veitir Andri Stefánsson hjá ÍSÍ.

Á myndinni eru frá vinstri: Hafrún Kristjánsdóttir, Rán Ingvarsdóttir, Kjartan Bjarni Björgvinsson, Lárus L. Blöndal forseti ÍSÍ, Gísli Gíslason varaformaður KSÍ

Myndir með frétt